Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. og Íslenski sjávarklasinn hafa undirritað samning um áframhaldandi samstarf. ÚR verður einn af aðalstyrktaraðilum Íslenska sjávarklasans og styður sérstakleg við frumkvöðla sem eru að stíga fyrstu skrefin við að þróa nýjungar í hafsækinni starfsemi.

Samstarfssamningurinn er liður í stefnumótun ÚR sem miðar að því að víkka starfsemi félagsins og vinna að nýsköpun í sjávarútvegi og annari hafsækinni atvinnustarfsemi.

Íslenski sjávarklasinn er vettvangur fyrir samstarf frumkvöðla og fyrirtækja í sjávarútvegi og haftengdri starfsemi. Í Húsi sjávarklasans við Grandagarð er samfélag yfir 80 aðila sem vinna að fisksölu, sjávarútvegstækni, fiskeldi, líftækni og margvíslegri nýsköpun og allir eiga það sameiginlegt að vinna að framgangi sjávarútvegs og tengdra greina.

Berta Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans:
„Við erum hæstánægð með endurnýjun samstarfsamningsins við Útgerðarfélag Reykjavíkur. ÚR er einn af allra fyrstu samstarfsaðilum Sjávarklasans.  Á næsta ári eru 10 ár frá stofnun Íslenska sjávarklasans. Það fjölbreytta starf sem fram hefur farið á vettvangi klasans hefði aldrei orðið jafn öflugt ef ekki hefði komið til stuðningur og áhugi öflugra samstarfsfyrirtækja á borð við Útgerðarfélag Reykjavíkur. Framundan eru spennandi tímar hjá Sjávarklasanum þar sem lögð verður áhersla á að virkja nýsköpunarumhverfið til að skapa verðmæti fyrir íslenskan sjávarútveg, auka sjálfbærni og bæta allt umhverfi hafsins“

Runólfur V. Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR:
„Samstarf okkar við Sjávarklasann er liður í viðleitni félagsins til að vinna að nýsköpun í sjávarútvegi og nýta tækifærin í bláa hagkerfinu til að auka verðmæti sjávarfangs. Við höfum átt í þessu samstarfi undanfarin ár og viljum halda því áfram. Framtíðin í greininni byggist ekki á að auka þann takmarkaða afla sem að landi kemur, heldur auka verðmæti hans.“

Frekari upplýsingar veitir Berta Danielsdóttir í síma 698-6200