Samkvæmt athugunum Íslenska sjávarklasans lítur út fyrir að mestur vöxtur haftengdra greina í heiminum verði í líftækni tengdri hafinu. Vöxturinn er áætlaður á milli 15-30% á ári á heimsvísu. Hérlendis hefur ýmislegt verið í burðarliðnum í þessum efnum en þó eru fjárfestingar í sjávarlíftækni mjög takmarkaðar. Á meðan aðrar þjóðir leggja umtalsverða fjármuni í sjávarlíftækni eru fá dæmi hérlendis um slíkt. Undantekning eru þó fjárfestingar Lýsis og metnaðarfullar áætlanir um uppbyggingu líftæknifyrirtækja sem tengjast hafinu á Siglufirði. Líftæknifyrirtækið Genis hyggst reisa verksmiðju á Siglufirði sem verður á heimsklassa. Á myndinni má sjá Kaffi Rauðku á Siglufirði en til hægri við hana er hús sem innan skamms hafist verður handa við að breyta í líftækniverksmiðju Genis.

Forsvarsmaður þessa verkefnis er Róbert Guðfinnsson fyrrum útgerðarmaður en hann hefur varið umtalsverðu fé í uppbyggingu ferða- veitinga-, og líftæknistarfsemi á Siglufirði en þessi uppbygging telst án efa til einna metnaðarfyllstu framtíðarverkefna í sveitarfélagi á landinu.

(Smellið á myndina til að sjá hana í fullri stærð.)