Pólar toghlerar hafa fengið vilyrði fyrir styrk frá Evrópusambandinu vegna vöruþróunar á stýranlegum toghlerum. Styrkurinn, sem veittur er að fjárhæð €50.000, notast við gerð markaðs- og áreiðanleikakönnunar sem verður síðan lögð inn með umsókn í Fasa 2 sem snýr að frekari þróun á hlerunum til notkunar við togveiðar. Áreiðanleikakönnunin snýr einnig að þróun tækninnar fyrir mun stærri hlera sem notaðir eru við rannsóknir á olíusetlögum.

Pólar hefur unnið að þróun stýranlegu toghleranna í nokkur ár og hefur meðal annars notið stuðnings frá Tækniþróunarsjóði, AVS og Íslandsbanka. Umsóknin nú var unnin í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Evris sem er með aðsetur í Húsi sjávarklasans líkt og Pólar toghlerar. Evris sérhæfir sig m.a. í umsóknarskrifum fyrir alþjóðlegar styrktar- og samstarfsáætlanir. Pólar er fyrsta íslenska nýsköpunarfyrirtækið sem fær styrk úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins en aðeins 178 umsækjendur fengu styrk nú en alls bárust 2000 umsóknir.

Á Íslensku Sjávarútvegssýningunni fyrr á þessu ári, fékk Pólar viðurkenningu fyrir „Bestu nýjung sem var kynnt á sýningunni“ fyrir stýranlega toghlerann. Þess má einnig geta að Pólar er eitt af þeim fyrirtækjum sem komu fyrst inn í Hús Sjávarklasans haustið 2012 og við hjá Íslenska sjávarklasanum óskum þeim og Evris til hamingju með þennan frábæra árangur.