Á síðasta ári heimsóttu 997 þúsund erlendir ferðamenn Ísland heim. Það er þreföldun á áratug en árið 2004 tóku 370 þúsund ferðmenn land hér. Og vöxturinn heldur áfram – það sem af er þessu ári hefur komum ferðamanna fjölgað um 28,6% samanborið við fyrstu fjóra mánuði síðasta árs.

Við í starfsliði Íslenska sjávarklasans sjáum í þessu mikil tækifæri fyrir íslenska matvælaframleiðendur og íslenska frumkvöðla í ferðaþjónustu sem vilja nýta sér mat, matarmenningu og matarhefðir í ferðaþjónustu sinni. Matarferðaþjónusta er þegar matur er notaður sem viðfangsefni, miðill, afþreying eða jafnvel áfangastaður í ferðaþjónustu. Í gegnum mat má enda skoða, prófa og upplifa eitthvað alveg nýtt, kynnast menningu og lífsháttum svæðisins sem verið er að heimsækja og fá innsýn inn í sögu svæðisins og daglegt líf í nútímanum. 

Afar lítið markvisst starf hefur verið unnið hér á landi tengt matarferðaþjónustu. Hin frábæra hátíð Food & Fun er að vísu undantekning þar á (þó hún snúist að vísu að hluta um innflutning á erlendum matreiðslumönnum) og svo er ýmis landbúnaðartengd ferðaþjónusta oft tengd íslenskum mat og kynningu á íslenskri matarhefð. Á Íslandi er svo auðvitað fjöldi góðra veitingastaða sem margir sækja í gamlar hefðir og nota staðbundið hráefni.

Kannanir sýna að mjög stór hluti erlendra ferðamanna sem koma til Íslands fara á veitingastað og þeir gefa matnum jafnan góða einkunn (8,3 af 10 skv. nýjustu mælingum). Þegar erlendir ferðamenn eru spurðir út í matarmenninguna á Íslandi eiga þeir hins vegar erfitt með að gera upp hug sinn – eru flestir hvorki neikvæðir né jákvæðir. Þarna er augljóslega tækifæri fyrir íslenska frumkvöðla.

Tvennt er vert nefna í þessu samhengi:

  1. Tækifærin liggja í því að nota mat sem vettvang og svið til að skapa upplifanir fyrir erlenda gesti. Ferðamenn vilja sjá staðbundna þekkingu og eitthvað sem er ólíkt hversdagslífi þeirra. Íslenskur matur, matarhefðir og aðferðir við að búa til og geyma mat geta þar spilað stórt hlutverk. Íslendingar eiga mjög ríka og sérstaka matarhefð til lands og sjávar. Vandamálið er kannski að við höfum glatað þessari hefð að stórum hluta, þekkjum hana þess vegna ekki vel og skömmumst okkar jafnvel fyrir sumt af því sem við þó kunnum skil á. Tíminn til að endurvekja gömlu hefðirnar og leita aftur til upprunans er núna. Erlendir ferðamenn koma flestir til að skoða stórbrottna náttúru hér á landi, en fá fæstir að kynnast vel þeim fjölmörgu hráefnum og matarafurðum sem hún gefur af sér og þeirri matarhefð sem harðneskjulegt veðurfarið gat af sér. Hér er augljóst tækifæri til að útvíkka upplifun erlendra ferðamanna af íslenskri náttúru.
  1. Að sjávarútveginum undanskildum liggur tækifæri íslenskra matvælaframleiðenda ekki í stórútflutningi heldur í smærri framleiðslu á gæðavöru sem hefur mikla sérstöðu á heimsmarkaðnum. Nokkur öflug og framsækin matvælafyrirtæki í slíkri framleiðslu hafa skotið rótum hér á landi á undanförnum árum og hafið útflutning. Mikilvægt er að nota tækifærið og kynna íslenskt hráefni og íslenskar vörur fyrir erlendum gestum enda sýna rannsóknir að ferðamenn sem kynnast nýjum mat og hráefnum á ferðalögum sínum eru líklegir til að leita þau aftur uppi þegar heim er komið – sérstaklega eftir að netverslun gerði það mögulegt í ríkara mæli en áður. Þannig getum við stutt við útflutningsstarf vaxandi íslenskra matvælaframleiðenda um leið og við kynnum ferðamönnum mat okkar og sögu.

Til að grípa þessi tækifæri þarf að byrja á því að styrkja tengslin í allri matvælaframleiðslukeðjunni hér á landi og samtímis efla tengsl hennar við ferðaþjónustuna. Það eru verkefni framtíðarinnar. Og það er heilmikið undir að vel takist til – enda meira en milljón ferðamenn á leiðinni á ári hverju.