Sjávarklasinn hyggst í sumar bjóða nemendum við háskóla að þróa hugmyndir um nýsköpun og stofnun fyrirtækja á sviðum tengdum bláa hagkerfinu. Stefnt er að því að nemendur vinni í 4-5 vikur að tilteknu verkefni og hafi aðstöðu í Húsi sjávarklasans við Grandagarð í Reykjavík.

Hugmyndirnar sem óskað er eftir að nemendur vinni að eru eftirfarandi:

  1. Nýting á vannýttum stofnum við Íslandsstrendur. Í verkefninu verði skoðað hvaða stofnar séu vannýttir og hvað aðrar þjóðir hafi gert varðandi nýtingu slíkra stofna. Gerð verði drög að viðskiptaáætlun um mögulegar veiðar á tiltekinni tegund og sölu afurða.
  2. Laxeldi á landi fer vaxandi víða í nágrannalöndum okkar. Í verkefninu verði skoðuð þau tækifæri og ógnanir sem felast í landeldi. Gerð verði drög að viðskiptaáætlun um slíkt eldi hérlendis.
  3. Gervigreind (AI) er að vaxa fiskur um hrygg á ýmsum sviðum. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um hvernig megi nota gervigreind til að spara orkukostnað skipa. Verkefnið snýst um að kortleggja möguleg tækifæri á þessu sviði.
  4. Þörungaeldi í sjó hefur vaxið umtalsvert á undanförnum árum og nágrannalönd okkar hafa hafið eldi af því tagi. Í verkefninu verði skoðaðar þær hindarnir og tækifæri sem kunna að liggja í nýsköpun á þessu sviði og sett upp drög að viðskiptaáætlun því tengt.
  5. Þörungaeldi á landi hefur vaxið umtalsvert á undanförnum árum. Í verkefninu verði skoðaðar þær hindarnir og tækifæri sem kunna að liggja í nýsköpun á þessu sviði og sett upp drög að viðskiptaáætlun því tengt.
  6. Þörungar hafa verið nýttir til manneldis í áratugi og hefur það aukist á síðustu árum. Í verkefninu verða skoðar nýjar leiðir til þess að nýta þörunga í manneldi. Gerð verði drög að viðskiptaáætlun því tengt.
  7. Stór alþjóðleg ráðgjafarfyrirtæki hafa verið lengi starfandi á sviði sjávarútvegs. Hérlendis hefur slík starfsemi verið fremur smá í sniðum. Verkefnið felst í að kortleggja þá erlendu starfsemi sem er til staðar á þessu sviði og leggja drög að viðskiptaáætlun um netverk fyrirtækja sem saman myndi íslenskt ráðgjafarfyrirtæki sem sinnir alþjóðlegu ráðgjafarstarfi í sjávarútvegi.
  8. Mikil aukning hefur verið í sölu fyrirtækja á ýmsum varningi og þjónustu á netinu, ekki síst í gegnum stór vefsölufyrirtæki. Getur aukið samstarf minni fyrirtækja um sölu á netinu eða samstarf um dreifingu auðveldað fyrirtækjum að auka sölu og ná fram hagræðingu? Verkefnið snýst um að skoða mögulega viðskiptaáætlun tengda sölu íslenskra vara á netinu.

 

Sjávarklasinn býður vinnuaðstöðu í Húsi sjávarklasans. Í þessu frumkvöðlaumhverfi verða til margar hugmyndir og samvinna fólks sem nemendur geta nýtt sér. Þá mun Sjávarklasinn bjóða aðstoð við að útfæra hugmyndir og tengja mögulega við þá aðila sem hugsanlega geta komið að verkefnunum.

Verði áframhald á verkefninu munu nemendur og Sjávarklasinn leita leiða til að stofna fyrirtæki um hugmyndina og leita eftir styrkjum eða að fá inn fjárfesta.

Umsóknir með upplýsingum um áhugasvið nemanda og bakgrunn skal senda á Sigurð D. Stefánsson nýsköpunarstjóra Sjávarklasans sigurdur@oceancluster.is.