Dagana 8.-9. janúar 2015 heldur Íslenski sjávarklasinn árlegan Verkstjórafund fyrir verkstjóra í sjávarútvegsfyrirtækjum. Þetta er þriðja árið í röð sem Íslenski sjávarklasinn býður verkstjórum í íslenskum sjávarútvegi til slíks fundar en stóru sölusamtökin stóðu að slíkum fundum um árabil fyrir síðustu aldamót.

Tilgangur fundanna er að efla tengsl verkstjóra í fiskvinnslu hér á landi, ræða breytingar í greininni og skiptast á hugmyndum um bætta vinnslu og vinnsluaðferðir. Um 50 verkstjórar eru skráðir á fundinn sem fer fram í Húsi sjávarklasans að Grandagarði í Reykjavík.

Mikill áhugi er á fundinum en umgjörðin hefur stækkað jafnt og þétt frá því að Íslenski sjávarklasinn endurvakti Verkstjórafundina fyrir þremur árum. Meðal fyrirlesara að þessu sinni eru Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans, Karl Hjálmarsson, markaðsstjóri Iceland Seafood International og Ína Björg Össurardóttir, gæðastjóri Icelandic Ný-Fisks.

Á fundinum verða þrjú megin viðfangsefni rædd: Sölumál og fullvinnsla, lenging hillutímans og loks öryggi og menntun starfsmanna. Þemun voru að nokkru leyti valin í samráði við verkstjóra í fiskvinnslum víða um land. Fjöldi erinda verða flutt á fundinum og sérstök áhersla lögð á umræður í hópum. Auk þess verður farið í heimsókn í Fiskkaup, Samhenta og Marel.

Enn er hægt að skrá sig á fundinn með því að hafa samband við Íslenska sjávarklasann í síma 577 6200 eða á sjavarklasinn@sjavarklasinn.is.