Úrvalslið hlaut klasaverðlaunin 2020 úr hendi Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra í dag. Í fyrsta lagi fékk Sjávarútvegsráðstefnan viðurkenningu fyrir brautryðjendastarf við að tengja fólk í sjávarútvegi saman með árlegri ráðstefnu sem nú hefur verið haldin í áratug.

Sjávarútvegsráðstefnan hefur stuðlað að aukinni umræðu á fjölmörgum sviðum sjávarútvegs og eflt með því tengsl og skapandi hugsun í greininni. Hólmfríður Sveinsdóttir formaður stjórnar Sjávarútvegsráðstefnunnar tók við viðurkenningunni fyrir hönd Sjávarútvegsráðstefnunnar

Þá hlaut Spakur ehf viðurkenningu fyrir ötult starf við að tengja saman fjárfesta og frumkvöðla í klasanum. Þau Helga Viðardóttir og Jökull Jóhannsson stofnendur Spaks hafa átt ríkan þátt í að brúa bilið á milli þessara aðila og skapa þannig grundvöll fyrir frekara frumkvöðlastarfi í klasanum.

Loks hlutu Magnea bátar, sem er nýsköpunarteymi um rafskip í eigu Navis, viðurkenningu fyrir að vekja athygli á mikilvægi umhverfislausna í skiparekstri hérlendis og að hvetja til samstarfs um nýsköpun á því sviði. Samstarf Magnea báta og Greenvolt, sem varð til í Húsi sjávarklasans, er gott dæmi um samstarf sem skilað getur umtalsverðum árangri og nýsköpun. Bjarni Hartarson og Kári Logason tók við viðurkenningunni fyrir hönd Magnea báta.