Út er komið ritið Efnahagsleg umsvif og afkoma sjávarklasans á Íslandi 2015 þar sem hagfræðingar Íslenska sjávarklasans fara yfir þróun sjávarútvegsins og tengdra greina á árinu 2015 í efnahagslegu samhengi. Hægt er að sækja ritið hér en þar kemur meðal annars fram eftirfarandi:

  • Beint framlag sjávarútvegs árið 2015 var 8,1% og lækkaði lítillega milli ára sem skýrist einkum af vexti annarra útflutningsgreina.
  • Sjávarútvegur og sá klasi fyrirtækja sem í kringum hann hefur myndast leggja árlega til um 25% landsframleiðslu í heild.
  • Staða sjávarútvegsins í heild er sterk líkt og undanfarin ár en fyrirkomulag peningamála og gengisskráning krónunnar nú þegar hyllir undir losun fjármagnshafta er talsverður óvissuþáttur. 
  • Annar óvissuþáttur sem nú blasir við er ákvörðun Breta um að ganga úr Evrópusambandinu en sala sjávarafurða til Bretlands skapar um 15% af útflutningsverðmætum sjávarafurða hérlendis.
  • Heildarafli sjávarafurða jókst um 235 þúsund tonn árið 2015 samanborið við fyrra ár og skýrist það einkum af betri loðnuvertíð en árið áður.
  • Útflutningsverðmæti á árinu 2015 voru lakari en aflabrögð gáfu tilefni til. Skýrist það af einkum af styrkingu krónunnar á tímabilinu, þeirri staðreynd að útflutningsverð loðnu, sem stóð undir þorra magnaukningar, voru lægri en á ýmsum öðrum tegundum og þrengingum á mörkuðum fyrir uppsjávarafurðir á Rússlandi.
  • Útflutningur til Evrópu vó minna á árinu 2015 en áður einkum vegna minni útflutnings til Rússlands. Þess í stað jókst útflutningur verulega til Bandaríkjanna, Suður-Ameríku, Kína og annarra Asíulanda.
  • Útflutningsverð botnfisks og skelfisks jukust tilfinnanlega milli 2014 og 2015 en fiskimjölsverð tók mikla dýfu við lok árs 2015 sem skilaði sér í lægri útflutningsverðmætum fiskimjöls en ella.
  • Upplýsingar um heildarafkomu sjávarútvegsins árið 2015 hafa ekki verið birtar en útkomnir ársreikningar stærri fyrirtækja benda til sambærilegrar rekstrarafkomu og árið áður.
  • Nýfjárfesting sjávarútvegsfyrirtækja á árinu 2015 nam 20,6 milljörðum króna sem er aukning frá árinu á undan um röska 4 milljarða króna.
  • Sterkar vísbendingar eru til að beinum störfum í sjávarútvegi hafi fækkað verulega milli áranna 2014 og 2015.
  • Nýfjárfesting í fiskeldi var 2,15 milljarðar króna sem er mesta nýfjárfesting í greininni sem mælst hefur. 
  • Innviðir til útflutnings ferskra sjávarafurða styrktust töluvert á árinu 2015 með tilkomu stærri flugvéla hjá flugfélögum. Gera má ráð fyrir að slíkur útflutningur geti aukist áfram eins og verið hefur með tilheyrandi verðmætaaukningu.
  • Tæknifyrirtæki innan sjávarklasans juku veltu sína um 12% heilt yfir á árinu 2015 og hefur greinin þannig vaxið um 10-15% á ári frá árinu 2009. 
Nánari upplýsingar veita Bjarki Vigfússon og Haukur Már Gestsson í síma 577-6200 eða í gegnum tölvupóst.