Sigurjón Arason prófessor og yfirverkfræðingur hjá Matís hlaut sérstaka viðurkenningu samstarfsvettvangs fyrirtækja innan Íslenska sjávarklasans fyrir framlag hans til aukinnar verðmætasköpunar í íslenskum sjávarútvegi. Viðurkenningin var veitt í Vorboði sem haldið var í Húsi Sjávarklasans þann 19. apríl.

Sigurjón hefur haft forystu um ýmsar rannsóknir og þróun í vinnslu sjávarafurða undanfarna þrjá áratugi sem skilað hafa verulegum ábata fyrir íslenskt þjóðarbú. Þá hefur Sigurjón þjálfað og kennt þúsundum einstaklinga í sjávarútvegi og m.a. á vettvangi Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.

Á undanförnum áratugum hefur orðið gríðarleg verðmætaaukning  í íslenskum sjávarútvegi þrátt fyrir minnkandi aflaheimildir. Samkvæmt athugun Íslenska sjávarklasans á verðmætaaukningu í sjávarútvegi kemur í ljós að þrátt fyrir að afli útgerða hafi minnkað úr 460.000 tonnum í 180.000 tonn milli áranna 1981 og 2011, tvöfaldaðist útflutningsverðmætið hins vegar. Þá aukningu má þakka stórbættri nýtingu hráefnis þar sem framleiðslan fór að snúast frekar um gæði en magn.

Í uppsjávarveiðum hefur einnig átt sér stað gríðarleg verðmætaaukning. Aflavermæti makríls hefur aukist um 10-15 milljarða undanfarin ár. Árið 2007 fóru 5% til manneldis en 95% til bræðslu, nú hefur kúvending orðið og hlutfallið sem notað er til manneldis er komið í 90%.

Í þeim dæmum, sem hér eru rakin, hafa stofnanir á borð við Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og síðar Matís og það rannsóknar- og þróunarfólk sem þar er innanbúðar haft mikið að segja. Þar hefur Sigurjón verið í forystu um árabil. Starf Sigurjóns hefur hvílt á þessu ómetanlega baklandi öflugra rannsóknarstofnanna. Þessi viðurkenning til Sigurjóns Arasonar er ekki síður hugsuð sem stuðningur við það starf sem unnið er á vettvangi rannsóknarstofnanna.

Þessi þróun hefur haldið áfram síðustu ár, en eigi svo að vera um ókomna framtíð er ljóst að nýsköpun í sjávarútvegi og tæknigreinum honum tengdum þarf að hjarna verulega við. Þessi viðurkenning er ekki síður hugsuð sem hvatning til íslensks sjávarútvegs um að stefna enn hærra í nýtingu afurða og gæðamálum. Þar er enn verk að vinna þótt Íslendingar séu í fararbroddi í nýtingu og gæðum. Enn má gera betur í að auka þekkingu á nýtingu afla, bæta geymslu og kælingu á afurðinni og gera meiri verðmæti úr aukaafurðunum með því að fullvinna þær fyrir m.a. heilsubótar- og lyfjaiðnað.

Hugmyndafræði klasa eins og Íslenska sjávarklasans er að tengja saman fólk og fyrirtæki svo úr verði ný þekking og meiri verðmæti. Sigurjón Arason hefur með líkum hætti leitt saman um árabil útgerðir og rannsóknar- og þróunarfólk og skapað þannig nýja þekkingu.

Við afhendingu viðurkenningarinnar sagði Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja frá því að Rannsóknarsjóður síldarútvegsins hafi  lýst áhuga á að veita styrki í nafni Sigurjóns til nemenda eða fræðimanna sem stunda rannsóknir í sjávarútvegi.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í Vorboði Íslenska sjávarklasans þar sem viðurkenningin var afhent. Myndirnar er einnig hægt að skoða á Facebook síðu okkar.

[line]

[slideshow id=10]

Professor Sigurjón Arason recieved an award from the collabiration of the Iceland Ocean Cluster for his contribution for increased value create in Icelandic fisheries. The award was presented to Mr. Arason at the Ocean Cluster house on April 19th.

The following pictures war taken during the ceremony at the Ocean Cluster House.

[line]

[slideshow id=10]