Í umræðum fyrirtækja innan Íslenska sjávarklasans hafa fyrirtækin lýst áhyggjum af því að áhugi ungs fólks á menntun sem tengist sjávarklasanum sé takmörkuð og oft sé skortur á vel þjálfuðu/menntuðu fólki á tilteknum sviðum klasans. Hér þarf að verða breyting á. Mikil þörf er fyrir vel menntað og þjálfað fólk til ýmissa rannsókna, fullvinnslu afurða, skipstjórnar, fiskeldis, verk- og tæknifræði,  markaðsmála, sjávarútvegsfræða, líftækni og flutninga svo eitthvað sé nefnt. Ef fyrirtæki í Íslenska sjávarklasanum eiga að auka verðmætasköpun á næstu árum þarf að efla menntun og áhuga ungs fólks á klasanum.

 

Í framhaldi af því var ákveðið að mynda menntahóp allra þeirra aðila sem koma að sérmenntun sem tengist Íslenska sjávarklasanum. Þessi hópur mun vinna þvert á alla fyrirtækjahópa innan sjávarklasans.  Þær menntastofnanir, sem fá þetta bréf og rætt verður við um aðild að þessu verkefni eru m.a. Háskólinn á Akureyri – sjávarútvegsfræði, Háskóli Íslands – Sjávar- og vatnalíffræði, matvælafræði og AQ Food, Hólaskóli – Fiskeldis- og fiskalíffræði, Háskólinn í Reykjavík – verk- og tæknigreinar og logistic, Háskólasetur Vestfjarða – Strandsvæðanám, Sjávarútvegsskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna, Tækniskólinn – Stýrimannanám og útvegsrekstrarfræði, Fisktækniskólinn og Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum – Stýrimannanám og rannsóknarþjónustan Sýni. Þessi listi er ekki tæmandi en gefur vísbendingar um sérnám sem í boði er. Ég hvet ykkur til að koma með ábendingar um aðra aðila sem kunna að sýna þessu máli áhuga og koma að gagni í þeirri vinnu sem framundan er. Þá verður einnig leitað til rannsóknarstofnana og fleiri aðila sem áhuga hafa á menntun í greininni.

 

Miðvikudaginn 18. Janúar síðastliðinn veitti Íslandsbanki 5 milljónir króna til þess að efla menntun í sjávarklasanum og er ætlunin að ráðstafa þeim í þá stefnumótunarvinnu sem framundan er í menntahópnum og mögulegt markaðsátak í kjölfarið.

Umfjöllun Íslandsbanka um styrkveitinguna.