Sjávarklasinn hefur tekið virkan þátt í starfsemi Ungra frumkvöðla og hefur haft fulltrúa í stjórn um árabil.  Á ári hverju heimsækja 3-500 nemendur, sem taka þátt í Ungum frumkvöðlum, Sjávarklasann til að fá hugmyndir og kynna sér hvernig stofna á fyrirtæki.

Ungir Frumkvöðlar eða Junior Achievement (JA) eru alþjóðleg frjáls félagasamtök sem starfa í 123 löndum. Markmið samtakanna er að undirbúa ungt fólk á aldrinum 15 – 21 árs fyrir framtíðina og auka færni þeirra til atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar með því að stuðla að aukinni nýsköpunar-, frumkvöðla- og viðskiptamennt í skólum. JA Iceland hefur verið starfrækt á Íslandi síðan árið 2002 en samtökin hafa fengið viðurkenninguna „Best Practice in Entrepreneurship Education“ frá framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins fyrir JA – fyrirtækjasmiðjuna. Í fyrirtækjasmiðjunni stofna nemendur sitt eigið fyrirtæki auk þess að vinna að viðskiptahugmynd á 13 vikna námskeiði sem miðar að því að efla skilning þeirra á fyrirtækjarekstri. Þátttakendur fjármagna stofnun fyrirtækis með sölu á hlutabréfum, ráða í stöðugildi og búa til viðskiptaáætlun sem er hrint í framkvæmd, síðan í lokin taka þau þátt í uppskeruhátíðinni í Smáralind. Hátíðin er haldin apríl ár hvert og velur dómnefnd sigurvegara í ýmsum flokkum. Það fyrirtæki sem hlýtur titilinn „fyrirtæki ársins“ tekur svo þátt í Evrópukeppni ungra frumkvöðla. 

 

Fulltrúi Íslenska Sjávarklasans situr í stjórn JA Iceland, ásamt fulltrúum frá Samtökum atvinnulífsins, Landsvirkjun, Arion Banka, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskólanum í Reykjavík.