Í dag kemur út ritið Verstöðin Ísland – Hagræðing og landfræðileg samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi 1993-2013. Í ritinu er fjallað um þær breytingar sem orðið hafa í íslenskum sjávarútvegi síðasta aldarfjórðunginn með sérstakri áherslu á þá hagræðingu og landfræðilegu samþjöppun sem einkennt hefur fiskvinnsluna á Íslandi frá upphafi 10. áratugar síðustu aldar.

Tilgangur ritsins er að varpa ljósi á hvernig nýtt umhverfi stórra sjávarútvegsfyrirtækja hefur myndast á Íslandi á síðustu áratugum, hvernig staðarval útgerðarinnar fyrir fiskvinnslu sína hefur breyst, hvaða kraftar hafa áhrif á staðarvalið og hvernig þessar breytingar hafa haft áhrif á sjávarútveginn, á ólíkar byggðir og ólíka landshluta. Þá geta niðurstöður skýrslunnar einnig nýst fyrirtækjum í flutningageiranum, höfnum um land allt og stjórnvöldum.

Verstöðin Ísland er gefin út með stuðningi og í samstarfi við Eimskip, Isavia, Kadeco, Hafnarsamband Íslands, Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, Vísi hf. og Faxaflóahafnir.