Þriðjudaginn 24. janúar hélt Iceland Geothermal í samvinnu við Rannís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands málþing um klasa og klasastjórnun. Málþingið var undir yfirskriftinni „Sameinum kraftana til nýrrar sóknar„.

Dr. Gerd Meire, aðstoðarforstjóri þýsku nýsköpunarmiðstöðvarinnar í Berlín flutti fyrirlestur um stefnur og þróun klasastjórnunar sem vakti mikinn áhuga viðstaddra.

Íslenski sjávarklasinn flutti einnig erindi ásamt þrem öðrum klösum, Heilbrigðisklasa, Ferðaþjónustuklasa og Iceland Geothermal. Í erendinu komu fram markmið sjávarklasans, hvernig umræðan hefur verið hérlendis og tekin fyrir nokkur dæmi um vörur og vöruþróun sem hefur þegar átt sér stað úr afurðum íslenska þorsksins. Þar kom meðal annars fram að íslendingar eru nú þegar framarlega í nýtingu þorsksins en að við getum gert betur. Að lokum var sagt frá þeim klösum sem hafa verið myndaðir og nýju húsnæði sjávarklasans sem verður tekið í notkun á þessu ári.
Hús sjávarklasans verður í Bakkaskemmu, Grandagarði 16 en nánari upplýsingar um húsnæðið má nálgast á heimasíðu okkar þegar nær dregur.

Áhugasamir geta nálgast nánari upplýsingar um dagskrá málþingsins og fyrirlesara á heimasíðu Gekon.