Í þessum kafla verður fjallað um starfsemi fyrirtækja og stofnana sem vinna vörur úr plöntum og efnum öðrum en þeim sem koma úr sjávardýrum og finnast í hafinu á hafsbotni og undir honum.

Olíuvinnsla er sá hluti þessarar starfsemi sem hefur verið fyrirferðamestur í nokkrum af nágranna­ríkjum Íslands. Í kringum Ísland hefur efnisvinnsla á eða undir hafsbotninum í kringum Ísland verið tak­mörkuð. Ætla má að í framtíðinni með aukinni tækni og rannsóknum eigi eftir að skapast for­sendur til nýtingar ýmissa af þeim auðlindum sem eru á eða undir hafsbotninum. Íslenska ríkið er eig­andi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem full­veldisréttur Íslands nær, samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. Allar ákvarðanir um nýtingu eru þannig meira og minna háðar ákvörðun ríkisvaldsins á hverjum tíma.

Staðan á Íslandi

Fyrirtæki sem falla undir þennan hluta klasans eru fremur fá, en af þeim er Bláa Lónið líklega þekktast. Fæstir myndu reyndar tengja fyrirtækið við hafið og vissulega er það nokkuð á mörkum þess að geta fallið undir haftengda starfsemi. Ástæðan fyrir því að fyrirtækið var sett undir hatt sjávarklasans var að það nýtir jarðsjó sem er blanda af fersku vatni og sjó í starfsemi sinni. Jarðsjór getur einnig nýst í fiskeldi eins og kom m.a. fram í kaflanum um fiskeldi. Bláa Lónið hefur byggt upp öfluga ferðaþjónustu, en árlega sækja um 400.000 gestir lónið, en það er samkvæmt könnunum Ferðamálastofu sá staður á Íslandi sem er erlendum ferðamönnum minnistæðastur er þeir yfirgefa landið. Einnig stundar fyrirtækið vinnslu á húðverndarvörum þar sem hin virku efni eru steinefni, kísill og þörungar, en hluta af þessari framleiðslu mætti án efa tengja við líftækni. Velta Bláa Lónsins árið 2010 var 2,7 milljarðar og starfsmenn eru 140.

Annað fyrirtæki sem tengist þessum hluta klasans og hefur töluverð umsvif er Þörungaverksmiðjan Reykholti sem framleiðir mjöl úr klóþangi (Ascophyllum nodosum) og hrossaþara (Laminaria digitata) sem sótt er til vinnslu víðs vegar úr Breiðafirði. Meira en 95% af framleiðslunni er til útflutnings og helstu markaðir eru Skotland, Bandaríkin, Bretland, Noregur, Holland, Þýskaland, Frakkland, Japan og Taiwan. Mjölið sem unnið er hjá Þörungaverksmiðjunni, er aðallega framleitt fyrir fyrirtæki sem vinna efni til að einangra svokölluð gúmmíefni til áframvinnslu í iðnaði, s.s. matvæla-, snyrtivöru-, lyfja- og textiliðnað ásamt margskonar öðrum iðnaði. Hjá Þörungaverksmiðjunni starfa 20 manns og velta fyrirtækisins 2010 var 344 milljónir.

Vinnsla á þara til manneldis hefur verið að aukast hér á landi á síðustu árum. Fyrirtækin Hafnot og Íslensk hollusta hafa selt þara og vörur búnar til úr þara. Fyrirtækið Hafnot sem er með aðsetur í Grindavík sérhæfir sig í þörungaveiðum, en tegundirnar sem um ræðir eru marínkjarni og hrossaþari. Þörungurinn er þurrkaður í sérstökum klefa, en hann er svo notaður í matvæli. Vörur frá Hafnotum hafa verið fluttar út, en þari frá fyrirtækinu fæst m.a. í verslunum Whole Foods í Bandaríkjunum. Íslensk hollusta var stofnuð árið 2005. Fyrirtækið vinnur að því að þróa og framleiða hollustufæði. Það hefur sett á markað hátt í tvo tugi vara: jurtate, krydd, sósur, osta, snakk, kryddlegin söl, berja­saft og baðefni.

Stjórnvöld hér á landi hafa veitt Íslenska Kalkþörungafélaginu ehf, leyfi til malartöku og til töku kalkþörungasets af sjávarbotni. Fyrirtækið var stofnað af Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða árið 2001 og vinnur við úrvinnslu kalkþörungasets við Arnarfjörð. Í Verksmiðju fyrirtækisins er heimilt að framleiða allt að 50.000 tonnum af kalki á ári. Afurðir verksmiðjunnar eru steinefnafóður og jarðvegsbætiefni og er nær allt flutt út. Söluskrifstofa fyrirtækisins er á Írlandi og fara afurðir verksmiðjunnar til viðskiptavina um allan heim. Starfsmenn verksmiðjunnar á Bíldudal eru 20. Auk þess eru nokkur afleidd störf, en angi af þessu verkefni er sala og markaðssetning á svokölluðu hafkalki sem fæst nú orðið í flestum heilsu- og lyfjaverslunum hérlendis. Hafkalk er markaðssett sem fæðubótarefni sem dregur úr verkjum vegna slitgigtar og vinnur gegn fótaóeirð.

Fyrirtækið Björgun hefur verið umsvifamest í malartöku hér á landi, en fyrirtækið hefur til fjölda ára stundað efnistöku af hafsbotni til framleiðslu fylliefna í steinsteypu og malbik auk ýmiss konar fyll­ingar­efna til mannvirkjagerðar. Dæluskip Björgunar sækja hráefni til vinnslunnar af hafsbotni í Faxaflóa.

Þróun erlendis

Nágrannaríki Íslands í Norður-Atlantshafi hafa verið nokkuð virk í olíuleit og við borun eftir olíu og byggst hafa upp öflugir atvinnuvegir sérstaklega í Noregi sem hafa að markmiði að þróa möguleika í tengslum við olíuiðnaðinn og þjóna honum. Á síðustu árum hefur áhugi manna á öðrum auðlindum er leynst gætu á eða undir hafsbotni verið að aukast. Út af ströndum Suður Afríku og Namibíu er námavinnsla sem byggir á leit að demöntum. Meðfram ströndum Afríku, Asíu og Suður Ameríku er einnig námavinnsla þar sem tin, títaníum og gull er unnið. Í þessum tilvikum er unnið við aðstæður þar sem sjór er fremur grunnur, en áhugi er á því að fara dýpra í leita að verðmætum jarðefnum. Er þá sérstaklega horft til vinnslu niður á allt að 5.000 metra dýpi. Aukinn áhuga má skýra með því að verð á málmum er að hækka m.a. vegna aukinnar eftirspurnar frá Kína og Indlandi. Efninn sem talað er um eru svokallaðir manganhnyðlingar, kóbalt útfellingar og súlfíðleðja sem verður til við gosvirkni neðansjávar. Úr manganhnyðlingum og kóbalt útfellingum er hægt að vinna kopar, kóbalt og nikkel. Talið er að á hafsbotni sé að finna um 1000 milljón tonn af kóbalti, en talið er að á landi séu að finna um 15 milljón tonn.

Enn eru áform um nýtingu þessara auðlinda aðeins á tilraunastigi og efnahagskreppan hefur heldur dregið úr getu fyrirtækja til að taka næstu skref. Ýmsar tæknilegar og umhverfislegar hindranir þarf svo að yfirstíga áður en eiginleg vinnsla hefst (World Ocean review).

Tækifæri og áskoranir.

Nokkrar vonir eru bundnar við að jarðolía eða jarðgas kunni að finnast innan íslenskrar lögsögu. Er þá fyrst og fremst horft til hins svokallaða Drekasvæðis við Jan Mayen-hrygg. Leyfi hafa verið veitt til leitar á íslenska landgrunninu og hafa stjórnvöld hafið undirbúning á veitingu rannsókna- og vinnsluleyfa. Talið er þjóðarbúið geti haft nokkurn ávinning af rannsóknarvinnu og olíu- og gasleit enda er slík leit afar kostnaðarsöm, mun hafa talsverða veltu í för með sér og skapa störf. Erfitt er þó að átta sig nákvæmlega á því hversu mikil umsvif skapist í kringum þessa leit. Færeyingar og Grænlendingar, sem eru ekki aðilar að EES samningnum, settu inn ýmiss ákvæði sem leitarfyrirtæki urðu að uppfylla sem ekki verður hægt að gera kröfu um hér á landi. Þetta voru t.d. ákvæði sem kváðu á um að rannsóknaraðilum bæri að styðja færeyskar menntastofnanir.

Málmvinnsla á hafsbotni gæti einnig orðið fýsilegur kostur og er þá einkum horft til seguljárns og fleiri málma sem talið er að finna megi á hafsbotni við Suðurland og í Héraðsflóa. Talið er að hér sé mikið af basaltgrjóti sem hafi hátt hlutfall af seguljárni. Fyrirtækið Soley Minerals sem er dótturfyrirtæki ástralska námuvinnslufyrirtækisins Thielorr Sarl hefur óskað eftir leyfi frá Orkustofnun til að kanna fýsileika slíkrar vinnslu og hvort hér finnist nægilegt vinnanlegt magn. Áætlað er að þessi forathugun taki fimm ár og að kostnaður verði á bilinu 800 milljónir til 2,2 milljarða króna. Þegar sjálf vinnslan er komin af stað er gert ráð fyrir að ná upp 250.000 tonnum af sandi, en úr því eru síðan unnin 25 þúsund tonn af málmi. Ef verkefnið gengur upp gætu skapast á bilinu 50-200 störf við vinnsluna. Verkefnið er enn sem komið er á byrjunarstigi og óvissuþættir eru margir. Ekki er vitað hvort vinnanlegt magn seguljárns sé nægt og einnig gætu skilyrði í sjónum skapað vandamál.

Við nýtingu á auðlindum hafsbotnsins verður að leggja áherslu á að kanna vel áhrifin á umhverfið sem eru væntanlega mismunandi eftir aðstæðum og eðli starfseminnar á hverjum stað. Kortlagning hafsbotnsins er ein leið til að rannsaka þessi áhrif, en auk þess hljóta slíkar rannsóknir að efla skilning okkar á umhverfisröskun vegna starfsemi á landi eða í hafi eða vegna nýtingar á auðlindum hafsins er áhrif hafa á hafsbotninn.

(kafli úr skýrslu sjávarklasans)

This section discusses the activities of companies and organizations that make products from plants and materials other than those derived from marine organisms and are found in the sea and the seabed beneath it.

 

Oil has been the greatest in some of Iceland’s neighboring countries. Around Iceland material processing at or below the ocean floor around Iceland has been limited. We anticipate that in the future through increased technology and research will pave the way for the utilization of the various resources on or under the seabed. The Icelandic state owns all resources, in or under the seabed off the net zone and as far out to sea as the sovereign right of Iceland extends, by law, treaties or agreements with individual countries. All decisions on the use are thus more or less dependent on government decisions at any time.

 

(An abstract from a report by the Iceland Ocean Cluster.)