Klasaþorskurinn

Klasaþorskurinn

 

Íslenski klasaþorskurinn var kynntur á ráðstefnu í Nuuk í Grænlandi hinn 12.ágúst síðastliðinn. „Þessi félagi okkar fer víða og fær ótrúlega jákvæðar viðtökur,“ segir Þór Sigfússon og vísar í mynd af íslenska þorskinum sem sýnir fjölbreytt úrval af þeim vörum sem búnar eru til úr þorskinum á Íslandi og hvernig íslenskur sjávarútvegur nýtir fiskinn að jafnaði betur en aðrar fiskveiðiþjóðir í Norður-Atlantshafinu. 

Þór Sigfússon og Asii Chemnitz Narup, borgarstjóri í Nuuk

Þór Sigfússon og Asii Chemnitz Narup, borgarstjóri í Nuuk

Á fundinum var rætt um hvernig mætti efla samstarf milli Grænlands og Íslands í sjávarútvegi. „Það er áhugi fyrir því að stofna fyrirtæki um fullvinnslu eins og þurrkun, niðursuðu, vöruhönnun og fleira. Við finnum fyrir miklum áhuga á samvinnu við samstarfsfyrirtæki okkar á Íslandi,“ segir Þór. Á fundinum var lögð áhersla á að ná breiðari hópi af athafnafólki saman til að koma hugmyndum í framkvæmd. „Við viljum sjá grænlenskt og íslenskt athafnafólk, fólk úr sjávarútvegi og vinnslu, hönnuði, fjárfesta og markaðsfólk stofna ný fyrirtæki á Grænlandi og hefja þróun og framleiðslu á vörum úr hafinu sem t.d. eru sérstaklega ætlaðar fyrir vaxandi hóp ferðamanna á Grænlandi eða fyrirtæki sem einbeita sér að fullvinnslu afurða sem nú fara að mestu til spillis. Tækifærin eru víða,” segir Þór.