Á aðalfundi Faxaflóahafna í lok síðasta mánaðar var tilkynnt um að Íslenski sjávarklasinn hafi hlotið Fjörusteininn – umhverfisverðlaun Faxaflóahafna, sem veitt eru ár hvert fyrirtæki sem þykir hafa sýnt gott fordæmi í umhverfismálum.

Við hjá Íslenska sjávarklasanum erum stolt af viðurkenningunni og óskum öllum íbúum Húss sjávarklasans til hamingju enda höfum við sett okkur þá stefnu sameiginlega að vera fyrirmyndarsamfélag sem ber virðingu fyrir umhverfi sínu. Við höfum lagt kapp á fallega hönnun og frágang á þeim eignum sem okkur er treyst fyrir og höfum skýra stefnu um endurvinnslu og að fara sparlega með rafmagn.

Umhverfismál skipa stóran sess í öllu starfi Íslenska sjávarklasans en allt frá stofnun höfum við lagt áherslu á forystu Íslands í hráefnanýtingu og fullvinnslu afurða hafsins. Slæm hráefnanýting er gríðarlega stórt vandamál í sjávarútvegi á heimsvísu. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) áætlar til að mynda að um 20 milljón tonn sjávarafurða fari til spillis árlega eða um 25% heimsaflans. Íslensk fyrirtæki og rannsóknarstofnanir eru margar hverjar í farabroddi í heiminum í að bæta hráefnanýtingu sjávarafurða og að skapa verðmætar vörur úr hráefninu sem fellur til við hina hefðbundnu framleiðslu. Íslenski sjávarklasinn vinnur meðal annars að framgangi þessara fyrirtækja og átti frumkvæðið að stofnun Codlands og Ocean Excellence fyrir þremur árum síðan. Það er von okkar að þetta mikla brautryðjendastarf íslenskra fyrirtækja haldi áfram og að flytja megi þessa tækni og þekkingu í auknum mæli út fyrir landsteinana.

Íslenski sjávarklasinn vill einnig koma þakkarkveðjum til stjórnar og starfsfólks Faxaflóahafna fyrir gott og traust samstarf við uppbyggingu Hús sjávarklasans undanfarin ár.

Fjörusteinninn