Fimmtudaginn 12. mars næstkomandi kl. 17 býður Íslenski sjávarklasinn til opnunar á sýningunni 1200 tonn í Húsi sjávarklasans. Á sýningunni munu þær Þórunn Árnadóttir, Dagný Bjarnadóttir, Kristbjörg Guðmundsdóttir og Milja Korpela sýna hönnun sína en verkin sem til sýnis verða eiga það öll sameiginlegt að sækja efnivið eða innblástur til úrgangs sem af mannavöldum safnast fyrir í hafinu, rekur á strandir og mikil umhverfisógn stafar af. Verkin sýna hvernig nýta má úrgang af strandlengjunni til nytsamlegrar og fallegrar hönnunar.

Sýningin er haldin í samvinnu við HönnunarMars og verður opin á virkum dögum fram til 20. mars. Sjá nánar um opnunartíma hér.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Landsbankinn og Egersund styrkja sýninguna.

***

Úrgangur er stórt vandamál í öllum höfum heimsins og skapar margvíslegar ógnanir gegn umhverfinu. Er þá átt við hvers kyns efni sem notað hefur verið af fólki og viljandi verið fleygt á hafi, vötnum eða ströndum, borist hefur til sjós með ám, vindum og skólpi, týnst (t.a.m. fiskinet eða farmur í óveðri) eða viljandi verið skilið eftir á ströndum.

Kastljósinu hefur lítið verið beint að rusli og spilliefnum á ströndum hér á landi en um er að ræða raunverulegt vandamál sem ekki hefur verið brugðist við. Ekki liggur fyrir mat á magni þess úrgangs sem safnast fyrir á ströndum landsins árlega og engar sérstakar aðgerðir eru starfræktar af hálfu opinberra aðila, hvorki til að mæla vandamálið né bregðast við því. Undantekning þar á er starfsemi vinnuskóla sveitarfélaga.

Umhverfissamtökin Blái herinn hafa hins vegar látið málið sig varða og hafa frá árinu 1995 unnið gríðarlega mikið og óeigingjarnt starf og hreinsað rusl, spilliefni og annað sem mengað getur hafið, einkum af strandlengjum Suðurnesja.

Gögn Bláa hersins gefa ótvírætt bestu fáanlegu vísbendingu um eðli og umfang vandans hér á landi. Frá árinu 1995 hafa samtökin hreinsað yfir 1.200 tonn af rusli af strandlengjum, opnum svæðum og höfnum landsins, mest á landi Reykjavnesbæjar. Þar af eru um 110 tonn af rafgeymum. Að sögn Tómasar J. Knútssonar, formanns Bláa hersins, eru vinnustundir í sjálfboðavinnu yfir 50.000 frá upphafi.

Hvað er til ráða?

Síðastliðið sumar samþykkti umhverfisráðuneytið aðgerðaráætlun til að draga úr ruslmagni í hafi og á ströndum á vettvangi alþjóðlega samningsins OSPAR um umhverfisverndun Norðaustur Atlantshafsins. Auk þess mun Umhverfisstofnun hefja vöktun á rusli á ströndum á tveimur stöðum sumarið 2015 með það að markmiði að fá skýrari mynd af umfangi vandans.

Lausnin kann þó að snúast öðru fremur um breytt hugarfar og rétta hvata. Mest magn þessa úrgangs hér á landi er af fiskiskipum og bátum, að öllum líkindum aðallega vegna óhappa og óveðra. Reynsla nágrannaþjóða við að lækka kostnað vegna hreinsunar þessa úrgangs með því að auðvelda sjómönnum að safna honum saman er góð og horfa mætti til þeirra ráða til að bregðast við vandanum hér á landi.