Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, flutti nýverið setningarræðu á hafráðstefnu Google sem haldin er í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Kaliforníu. Í ræðunni lýsti forseti þeim árangri sem Ísleningar hefðu náð í að nýta allan afla sem berst á land, m.a. með þurrkun hausa, vinnslu heilsuvöru úr innyflum og tískuvöru úr roði. Á þann hátt nýti Íslendingar nú á arðbæran hátt allt að  90% af aflanum á meðan flestar aðrar fiskveiðiþjóðir hendi um helmingi hans. Um leið og stefnt væri að sjálfbæru skipulagi veiða væri nauðsynlegt að breyta vinnsluaðferðum fyrirtækja í átt að fullri nýtingu.

„Við höfum verið í ágætu samstarfi við forsetaembættið um ýmis verkefni og kynnt þeim m.a. athuganir okkar á ólíkri nýtingu sjávarafurða eftir löndum, þar sem við Íslendingar erum með algera sérstöðu“, segir dr. Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans. „Það er mjög mikilvægt fyrir allan íslenska sjávarklasann að forseti Íslands skuli nú bera út þennan mikilvæga boðskap. Það getur skapað mörg tækifæri fyrir okkur.“