Svifaldan verðlaun fyrir Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar voru veitt í sjöunda skipti nú á dögunum. Markmið Sviföldunar er að efla umræður og hvetja til nýrrar hugsunar með framsæknum og frumlegum hugmyndum.

Fisheries Technologies ehf báru sigur úr býtum í ár en fyrirtækið er einmitt með aðstöðu í frumkvöðlasetri í Húsi sjávarklasans. Vilhjálmur Hallgrímsson framkvæmdarstjóri fyrirtækisins tók á móti verðlaununum, en hugmynd þeirra ,,The Fisheries Manager“  er nýtt alhliða upplýsingakerfi fyrir fiskveiðistjórnun sem er sérstaklega sniðið að þörfum þróunarríkjanna. Kerfið byggir á áratuga fjárfestingum og reynslu Íslendinga á þessu sviði.

Þess má geta að undanfarin tvö ár hafa vinningshafar haft aðstöðu í Sjávarklasanum. Árið 2016 fékk Skaginn 3X Svifölduna fyrir ofurkælingu á fiski og árið 2015 hlaut Margildi ehf Svifölduna fyrir fullvinnslu lýsis úr uppsjávarfiski.

Íslenski sjávarklasinn vill óska Fisheries Technologies innilega til hamingju með sigurinn í ár.

Við getum stolt sagt frá því að hér í Húsi sjávarklasans verða hugmyndir að veruleika.