Eitt viðamesta verkefni Sjávarklasans þau rösk tíu ár frá því að Hús sjávarklasans var opnað hefur verið að hlúa að frumkvöðlafyrirtækjum með ýmsum hætti. Veigamesti þátturinn hefur verið að skapa samfélag fyrir þessa sprota þar sem þau eiga kost á að hitta aðra frumkvöðla, stærri fyrirtæki og fjárfesta. Sjávarklasinn starfrækir nú rými sem er 120 fermetrar að stærð í Húsi Sjávarklasans þar sem frumkvöðlar hafa aðstöðu. Auk aðstöðunnar hafa frumkvöðlar aðgang að fundarýmum klasans auk margvíslegrar þjónustu sem Sjávarklasinn býður upp á.

Framtíðarsýn Faxaflóahafna er að vera meðal fremstu hafna í Norður-Atlantshafi og með áherslu á uppbyggingu hafnarinnviða styrkja samkeppnisstöðu Íslands. Faxaflóahafnir eru grænar, öruggar og skilvirkar hafnir með sjálfbærni að leiðarljósi. Skipulagning svæða er með grænum áherslum fyrir fjölbreytt samfélag og nýsköpun í hafnsækinni starfsemi. Það glæsilega starf meðal sprotafyrirtækja sem hefur fengið að blómstra í frumkvöðlasetri Húss sjávarklasans er í takti við framtíðarsýn og stefnu Faxaflóahafna. Þess vegna er mikilvægt að styðja við nýsköpun svo að Faxaflóahafnir séu drifkraftur viðskipta- og atvinnulífs á Faxaflóasvæðinu, segir Sigurður Jökull Ólafsson markaðsstjóri Faxaflóahafna.

Í allt hafa um eitt hundrað nýsköpunarfyrirtæki nýtt sér frumkvöðlasetur Húss sjávarklasans frá því það var opnað árið 2012. Frumkvöðlasetrið hefur reynst dýrmætur stökkpallur fyrir þessi nýsköpunarfyrirtæki. Fyrirtækin sem hafa haft aðstöðu í frumkvöðlasetrinu eru m.a. Ankra/Feel Iceland, Norðursalt, Optitog, Fisherman, Flow, Nordic Wasabi, Norðurbragð, Oculis, Florealis, Codland, Dropi, Fisheries Technologies og Collagen. Stuðningur Faxaflóahafna er því mikilvægur liður í að stuðla að aukinni starfsemi og stofnun nýsköpunarfyrirtækja.