Áhugi erlendra fjárfesta á nýsköpunarfyrirtækjum innan sjávarklasans fer vaxandi. Meðan íslenskir fjárfestar og lífeyrissjóðir hafa keppst um að kaupa rótgróin íslensk fyrirtæki á innlendum hlutabréfamarkaði hafa erlendir fjárfestar sýnt fyrirtækjum sem tengjast meðal annars vannýttum náttúruauðlindum og líftækni hér á landi aukinn áhuga. Nú er svo komið að erlendir fjárfestar eiga umtalsverðan eða ráðandi hlut í fiskeldisfyrirtækjum, þörungavinnslum og sjávarlíftæknifyrirtækjum hér á landi, svo eitthvað sé nefnt. En þarf á einhvern hátt að bregðast við þessum aukna áhuga erlendra fjárfesta?

Þessari spurningu er reynt að svara í nýrri greiningu sjávarklasans sem má nálgast hér á PDF formi og lesa að neðan.


Erlendir fjárfestar sækja í íslenska sjávarlíftækniiðnaðinn

Enda þótt velta í greinum á borð við líftækni, fiskeldi og þörungavinnslu sé einungis brot af veltu sjávarútvegsins geta þessar greinar vaxið mun meira en hinn hefðbundni sjávarútvegur. Á þetta hefur Íslenski sjávarklasinn bent á undanförnum árum og sýnt fram á mikinn vöxt þessara greina. Með framförum og rannsóknum í líftækni og aukinni þekkingu og reynslu í fiskeldi skapast fjölmörg tækifæri til vöruþróunar og verðmætasköpunar.

Aðkoma sjávarútvegsfyrirtækja þýðingarmikil, en hvað svo?

Vandi líftæknifyrirtækja hérlendis hefur fyrst og fremst falist í takmörkuðum fjármunum og vanþróuðum fjárfestamarkaði. Í skýrslu um umsvif, tækifæri og áskoranir í sjávarklasanum sem gefin var út árið 2011 sagði:

„Í samtölum við fulltrúa sumra líftæknifyrirtækja kom fram það viðhorf að erfiðlega gengi að fá fjármagn inn í slík fyrirtæki hér á landi, enda væru þau mörg hver fjárvana. Fjárfestar virðast halda að sér höndum og fyrirtækin upplifa mörg hver að samkeppnissjóðir hins opinbera séu frekar sniðnir að þörfum stofnana en fyrirtækja. Aðrir voru jákvæðarlífti og töluðu um að fjármögnun hafi gengið ágætlega. Þetta virtist sérstaklega eiga við þar sem fyrirtækin höfðu fengið öflugt sjávarútvegsfyrirtæki inn í hluthafahópinn.“

Áhugavert er að sjá að sjávarútvegsfyrirtæki hafa komið að uppbyggingu margra líftæknifyrirtækja. Má þar meðal annars nefna þátttöku Vísis, Ramma, Þorbjarnar FISK Seafood og Síldarvinnslunnar í uppbyggingu nokkurra slíkra fyrirtækja. Þegar líftæknifyrirtækin ná vissri stærð þurfa þau hins vegar annars konar þekkingu, fjárfesta og alþjóðleg tengsl á nýjum mörkuðum sem íslensku sjávarútvegsfyrirtækin hafa jafnan ekki. Þá hafa innlendir fjárfestar og fjármálamarkaður afar takmarkaða þekkingu á þessu sviði. Því verða erlendir fjárfestar oft næstir í röðinni sem hluthafar hinna vaxandi nýsköpunarfyrirtækja.

Takmörkuð þekking fjárfesta á nýjum sjávarútvegi

Þess sjást ýmis merki að erlendir aðilar sýni íslenskum þekkingar- og líftæknifyrirtækjum í sjávarklasanum áhuga. Nýverið var Stofnfiskur, eitt stærsta líftæknifyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi, selt til breska líftæknirisans Benchmark Holdings plc. Stærsti seljandinn var HB Grandi. Þá var 60% hlutur í þörungalíftæknifyrirtækinu Marinox einnig seldur nýverið til írska fyrirtækisins Marigot, sem jafnframt er eigandi Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal. Þá er Þörungaverksmiðjan á Reykhólum einnig að stórum hluta (71,6%) í eigu bandarískra aðila, auk þess sem tvö önnur íslensk nýsköpunarfyrirtæki sem hagnýta þörunga eru að hluta í eigu norskra aðila. Erlendir fjárfestar hafa svo sýnt líftæknifyrirtækinu Kerecis áhuga.

Þessi áhugi erlendra fjárfesta kemur ekki á óvart. Á alþjóðafjármálamarkaði má greina mikinn áhuga fjárfesta á hagnýtingu rannsókna í sjávarlíftækni. Hérlendis er talsverð þekking á fjármálamarkaði þegar kemur að sjávarútvegi en mjög takmörkuð í því sem kalla má hinn „nýja sjávarútveg“. Það er því líka eðlilegt að innlendir frumkvöðlar horfi til erlendra aðila um samstarf og fjárfestingar.


 

samvinna-liftaeknifyrirtaekja

Zymetech, Kerecis, Lipid og Codland eru dæmi um áhugaverð íslensk sjávarlíftæknifyrirtæki.

Þörf á tryggu regluverki

Þrennt er hins vegar mikilvægt að hafa í huga við þátttöku erlendra fjárfesta í verkefnum af þessu tagi hér innanlands.

Í fyrsta lagi má finna í norskum lögum ákvæði um að ekki megi selja eða miðla til annarra réttinum til að nýta  erfðaefni úr auðlindum sjávar nema með leyfi. Í lögunum segir að ákveða megi að nýting og rannsóknir í hafinu í tengslum við líffræðilega leit séu háðar stjórnvaldsleyfi. Í slíku leyfi má kveða á um að ekki megi selja slíkt erfðaefni og annan afrakstur starfsemi á sviði líffræðilegrar leitar né miðla til annarra nema með leyfi. Þótt lög um efnahagslögsögu Íslands taki til allra lífrænna og ólífrænna efna hafsins við landið er ákvæði sem þessi ekki að finna í íslenskum lögum. Mikilvægt er að skoða hvort slík lagasetning geti tryggt íslenska hagsmuni. 

Í öðru lagi er brýnt að við sölu hlutabréfa líftæknifyrirtækja úr landi sé reynt eftir mætti að halda áfram þróun og rannsóknum hérlendis líkt og raunin hefur verið að undanförnu. Til að mynda er stefnt að eflingu á starfsemi Stofnfisks hér á landi í kjölfar sölu félagsins. Í það minnsta þarf að vekja sem mest áhuga og skilning erlendra fjárfesta á þeim öflugu rannsóknum sem hér fara fram og þeim áhuga sem íslenskur sjávarútvegur hefur sýnt á samstarfi um ýmis þróunarverkefni. Samningur Matís um sölu á Marinox er einnig ágætt dæmi um þetta þar sem Matís mun áfram sinna rannsóknum í samstarfi við írsku kaupendurna. Í því felast tækifæri fyrir bæði erlenda fjárfesta og íslenska þróunar- og rannsóknarstarfsemi. 

Í þriðja lagi þurfa innlendir fjárfestar að efla kunnáttu sína í haftengdum greinum. Þekking fjármálamarkaðarins á veiðum og vinnslu bolfisks og uppsjávarfisks er til mikil hér á landi en mun minni þegar kemur að hinum nýju greinum. Ágæt teikn eru þó á lofti, t.d. varðandi þekkingu hins innlenda fjármálamarkaðar á fiskeldissviðinu. Kynna þarf betur nýju íslensku líftæknistarfsemina fyrir innlendum fjárfestum og efla um leið tengsl fjármálafyrirtækjanna við erlenda fjármögnunaraðila á þessu sviði.

Tökum vel á móti fjárfestum

Þó höfin þeki um 70% af yfirborði jarðar hefur ásókn mannsins að mestu beinst að lífríkinu á landi. Talið er að innan við 5% af hafinu hafi verið kannað til hlítar og að um þriðjungur af lífverum hafsins séu að einhverju leyti rannsakaðar. Hver dropi af sjó er þannig fullur af lífverum sem menn þekkja ekki og hafa aldrei verið rannsakaðar. Hér kunna að liggja mun meiri verðmæti heldur en í þeim sjávarafurðum sem við veiðum í dag. Tækifærin eru víða og áhugi erlendra aðila á fjárfestingum í haftengdri starfsemi hérlendis er því vel skiljanlegur.

Íslendingar eiga að taka vel á móti fjárfestum sem vilja leggja áhættufé í innlenda nýsköpun. Ísland hefur áunnið sér nokkurn sess sem ríki sem nú sækir fram í rannsóknum og nýsköpun sem tengist sjávarútvegi, hafinu og sjávarlíftækni. Þeirri sérstöðu þarf landið að halda og byggja á, meðal annars með því að efla samstarf við önnur lönd og fjárfesta og laða hingað fjármagn og þekkingarstarfsemi um leið og hugað er að sjálfbærri nýtingu hafsins og lífvera þess.


Greining sjávarklasans. Birt 12. mars 2015. Nánari upplýsingar veita Bjarki Vigfússon, Haukur Már Gestsson og Þór Sigfússon