Blaðamaðurinn Sigurður Már Jónsson hefur á síðustu dögum skrifað tvær skemmtilegar greinar um þjóðhagslegt mikilvægi sjávarútvegs og sjávarklasans á Íslandi. Sú fyrri ber heitið „Er sjávarútvegurinn vanmetinn?“ og var birt 12. júlí hér. Sú síðari, „Hornsteinninn“ birtist hér. Í þeirri grein segir m.a:

„Rétt er að velta fyrir sér hvort þessar hagtölur gefi rétta mynd af þýðingu sjávarútvegs í íslenskum þjóðarbúskap? Þannig var spurt í ársgamalli skýrslu sem Íslandsbanki gaf út í samvinnu við Íslenska sjávarklasann og við þessu er mikilvægt að fá svör. Ekki síst vegna þeirrar umræðu sem er alla jafnan um sjávarútveginn en hún er á stundum dálítið gassaleg þegar hugsað er til þess að hér er um að ræða fjöregg þjóðarinnar. Íslendingar ættu reyndar að vera stoltari af sínum sjávarútvegi, þá verðmætasköpun sem við höfum náð út úr honum, tæknivæðingu og þó ekki síst hve vel okkur hefur tekist að vernda og byggja upp stofna.“