Í nýrri greiningu Íslenska sjávarklasans er viðfangsefnið vöxtur tæknigreina sjávarklasans undanfarin ár en velta tæknifyrirtækja í sjávarklasanum jókst um 12% á árinu 2015 og er nú um 60-65 milljarðar króna. Í greiningunni kemur fram að verkefni í fiskvinnslutækni um allan heim og stór verkefni innanlands í skipasmíðum og nýjum verksmiðjuhúsum séu áberandi. Bestur gangur virðist áfram hjá fyrirtækjum í fiskvinnslutækni sem eru með veltu yfir milljarði króna og fjöldi þeirra fyrirtækja fer vaxandi. Velta margra þessara fyrirtækja jókst um allt að þriðjung á árinu.

Lesa má greininguna hér að neðan eða sækja PDF skjal hér.


Áfram vaxa tæknigreinar sjávarklasans af krafti

Velta tæknifyrirtækja í sjávarklasanum jókst um 12% á árinu 2015 og er nú um 60-65 milljarðar króna. Verkefni í fiskvinnslutækni um allan heim, stór verkefni innanlands í skipasmíðum og nýjum verksmiðjuhúsum eru áberandi.
Bestur gangur virðist áfram hjá fyrirtækjum í fiskvinnslutækni sem eru með veltu yfir milljarði króna og fjöldi þeirra fyrirtækja fer vaxandi. Velta margra þessara fyrirtækja jókst um allt að þriðjung á árinu.
Kaup á fyrirtækjum og samruni heldur áfram sem skýrist ugglaust af því að stærri fyrirtæki virðast hafa meiri burði til að efla markaðssetningu og bjóða heildarlausnir. 

***

Tæknigeiri sjávarklasans á Íslandi samanstendur af 70-80 fyrirtækjum sem þróa, framleiða og selja tækja- og hugbúnað fyrir báta, skip og fisk- og matvælavinnslur. Fyrirtækin má flokka eftir sjö sérsviðum, þ.e. fisk- og matvælavinnslutækni, kælitækni, umbúðir og kör, hugbúnaður, bátar, skipatækni og veiðarfæri. Mörg fyrirtækjanna selja lausnir sínar öðrum atvinnugreinum en sjávarútvegi og í þeim tilfellum þar sem um ræðir stór félög sem hafa mikla veltu utan sjávarútvegsins er aðeins tiltekinn sá hluti tekna sem tengist sjávarútvegi í þessari umfjöllun.

Af 60 milljarða veltu greinarinnar eru Marel og Hampiðjan lang stærst með samanlagða veltu í tengslum við sjávarútveg og fiskvinnslu upp á röska 20 milljarða króna á árinu 2015. Hástökkvarar síðustu ára eru síðan all nokkrir og má þar m.a. nefna Skagann/3X og Völku. Ýmis önnur minni fyrirtæki virðast síðan vera að eflast til muna og auka veltu sína umtalsvert milli ára.

Heildarvelta jókst

Heildarvelta tæknifyrirtækja í sjávarklasanum jókst um 12% milli áranna 2014 og 2015 en árið á undan jókst veltan um 11%. Tæknigeiri sjávarklasans hefur stækkað um 10-15% á hverju ári frá því mælingar Íslenska sjávarklasans hófust árið 2012.

Ör vöxtur í fiskvinnslu- og kælitækni en minni í öðrum geirum

Eins og undanfarin ár eru það fyrst og fremst fyrirtæki í fiskvinnslu- og kælilausnum sem vaxa hraðast en hægari vöxtur er hjá fyrirtækjum í veiðarfæratækni, bátum og skipatækni. Framúrskarandi lausnir íslenskra fyrirtækja í meðferð og kælingu matvæla er ugglaust ein helsta ástæða þessa góða gengis.

Mikill munur er á vexti fyrirtækja í fiskvinnslutækni. Þannig eru dæmi um mörg fyrirtæki sem auka veltu sína um rösklega þriðjung á milli áranna 2014-2015 en önnur standa í stað eða velta dregst lítillega saman.

Marel áttu góðu gengi að fagna á árinu 2015. Nokkur hraðvaxandi tæknifyrirtæki í fiskvinnslutækni hafa einnig aukið veltu sína um allt að 100-200% á síðustu 3-4 árum. Svo virðist sem þau fyrirtæki sem hafa lagt áherslu á heildstæðar lausnir og upplýsingatækni samhliða málsmíði séu að ná umtalsverðu forskoti.

Fjárfestingar íslenskra útgerðarfyrirtækja í nýjum skipum hefur haft jákvæð áhrif á tæknifyrirtækin og þó sérstaklega fyrirtæki sem sérhæfa sig í fiskvinnslu um borð. Eins og áður hefur komið fram ætti að vera möguleiki á að þessar nýfjárfestingar skiluðu sé enn betur í eflingu þekkingar innanlands í hönnun skipa og ýmsum innlendum lausnum sem. Í þessum efnum geta tækni- og verkfræðifyrirtæki einnig eflt samstarf og boðið heildarlausnir í samkeppni eða samstarfi við stórar skipasmíðastöðvar erlendis. Um leið er afar mikilvægt að útgerðir sýni enn meiri áhuga á íslenskri tækni í skip. Eins og í fiskvinnslutækni getur aukið samstarf útgerða og tæknifyrirtækja í skipatækni leitt til þess að tæknifyrirtækin verði vel í stakk búin til þess að bjóða lausnir sínar á alþjóðamarkaði. Þannig geta átt sér stað umtalsverð margföldunaráhrif af auknu samstarfi eins og gerst hefur í fiskvinnslutækni.

Ýmis minni sérhæfð hátæknifyrirtæki halda áfram að styrkja grundvöll sinn. Má þar nefna fyrirtæki sem eru í fiskeldislausnum, fyrirtæki með öryggisbúnað, stjórnkerfi fyrir veiðar, veiðarfæratækni, róbótum, hitastigsbúnað og ýmsan tæknibúnað sem sparar orku.

Helstu breytingar hjá tæknifyrirtækjum

Breytingar sem má sjá hjá tæknifyrirtækjum sjávarklasans eru helst tvenns konar. Stóru og meðalstóru fyrirtækin halda áfram að eflast. Fyrirtækin halda áfram að sameinast eða auka samstarf. Ástæða þessa er án ef efa sú staðreynd að umtalsverð stærðarhagkvæmni virðist í greininni. Stærri fyrirtæki eða samstarfsnet fyrirtækja hafa meiri möguleika á að efla markaðssókn og vöruþróun og að bjóða heildarlausnir. Í öðru lagi eru stöðugt fleiri fyrirtæki innan sjávarklasans að feta sig áfram í öðrum greinum matvælaiðnaðarins. Í þessum efnum ruddi Marel brautir á sínum tíma en nú eru mun fleiri fyrirtæki að verða öflug í öðrum greinum s.s. kjúklingaiðnaði o.fl.

Verkefnastaðan er góð á árinu 2016

Tæknigeiri sjávarklasans heldur áfram að eflast. Verkefnastaða fyrirtækjanna á árinu 2016 er góð og starfsmönnum fjölgar lítillega. Eins og áður eru tekjur þó hverfular og umhverfi sjávarútvegsins, bæði hér og í nágrannalöndum, ræður mestu um afkomu fyrirtækjanna.

_____

Nánari upplýsingar veitir Þór Sigfússon í síma 618-6200.