Hópur íslenskra tæknifyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi hafa um nokkurt skeið unnið saman að þróun heildstæðra tæknilausna í fiskiskip. Markmið samstarfsins er að bjóða viðskiptavinum heildstæða lausn og framúrskarandi íslenska tækni um borð í fiskiskipum, efla markaðssókn fyrirtækjanna og hnykkja um leið á forystu íslensks sjávarútvegs í gæðum og ábyrgð í veiðum og vinnslu.

Í dag, fimmtudaginn 7. nóvember undirrituðu þessi 8 fyrirtæki sameiginlega viljayfirlýsingu um þetta samstarf að viðstöddum Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegsráðherra. Það er von þeirra fyrirtækja sem standa að „íslensku leiðinni“ að samstarf þeirra um heildstæða lausn geti aukið áhuga útgerða, hér og erlendis, á að nýta innlenda þekkingu við endurbætur fiskiskipa.

Fyrirtækin sem standa að þessu samstarfi eru 3X Technology, DIS, Naust Marine, Navis, Nortek, Promens, Samey og ThorIce. Fyrirtækin starfa öll innan Íslenska sjávarklasans. Líklegt er að með tímanum bætist fleiri íslensk tæknifyrirtæki í þennan hóp.

Hjá þessum fyrirtækjum starfa samanlagt 170 manns. Stór hluti starfsmanna eru tæknimenntaðir einstaklingar, hönnuðir o.fl. Fyrirtækin hafa samanlagt yfir 180 ára reynslu í þróun tæknilausna fyrir sjávarútveg.