Í morgun efndi Íslenski sjávarklasinn til fundar með neytendavöruhópi sínum en í þeim hópi eru framleiðendur matvæla, lyfja og snyrtivara sem framleiða vörur í neytendapakkningum. Meðal þeirra sem sækja fundi neytendavöruhópsins eru leigendur í Húsi sjávarklasans og meðlimir í tengslaneti okkar sem framleiða jafn ólíkar vörur og niðursoðna lifur, sjávarsalt, humar, kollagen, krem og lyf.

Markmiðið með þessum fundum er að ræða saman um áskoranir og tækifæri í vöruþróun, markaðssetningu og sölu vara til neytenda og að tengja saman fólk úr ólíkum áttum til að læra af reynslu hvers annars. Fundina sækja líka hönnuðir og markaðsfólk en gríðarleg tækifæri eru í betri samvinnu vöruhönnuða, grafískra hönnuða og matvælaframleiðenda.

Það fengu þátttakendur í morgun að heyra frá fyrstu hendi en Óskar Þórðarson framkvæmdastjóri Omnom Chocolate hélt stutta kynningu um ótrúlega vaxtarsögu fyrirtækisins og lærdóminn af henni. Umbúðir Omnom hafa vakið gríðarlega mikla athygli fyrir einstaklega fallega og heildstæða hönnun. Umbúðirnar hafa vafalítið spilað langstærstan þátt í velgengni fyrirtækisins að mati Óskars og hafa gert fyrirtækinu kleift að skapa ekki bara frábæra vöru og eftirsótta vöru heldur upplifun fyrir neytendur.

Omnom refur