BjarkiVigfusson

Bjarki Vigfússon

Í Færeyjum standa yfir miklar umræður um endurskipulagningu fiskveiðistjórnunar-kerfisins þar í landi en stefnt er að því að innleiða breytingar á kerfinu árið 2018. Í tilefni af því efndi Háskólinn í Færeyjum og Hafrannsóknarstofnun Færeyja til ráðstefnu um möguleika Færeyja í þessum efnum og framtíðaráskoranir í sjávarútvegi undir yfirskriftinni “2018 – og hvat so?”. Ráðstefnan fór fram 4. apríl síðastliðinn í Þórshöfn og var Bjarki Vigfússon, hagfræðingur hjá Íslenska sjávarklasanum, meðal fyrirlesara.

„Færeyingar höfðu fyrst og fremst áhuga á að fræðast um þá þróun sem hefur orðið hér á landi síðustu 20 árin í bættri nýtingu aukaafurða þorsks og annarra bolfisktegunda. Þessi saga vekur alltaf nokkurn áhuga enda hefur hún verið nokkuð farsæl íslenskum fyrirtækjum. Það er líka mikilvægt að skilja að lög á Íslandi eru nokkuð ströng þegar kemur að því að koma með aukaafurðirnar í land og að því leyti stöndum við Íslendingar framarlega í að sýna ábyrgð í umgengni við auðlindina. Bolfiskiðnaðurinn í Færeyjum stendur á tímamótum, kannski ekki ósvipuðum þeim sem Íslendingar stóðu frammi fyrir um 1990, og því höfðu þeir sérstakan áhuga á að fá að heyra þessa sögu og hvaða lærdóm íslensk fyrirtæki hafa dregið af henni og hvert þau stefna í framtíðinni“ segir Bjarki um heimsóknina til Færeyja.