This is a single blog caption

Greining Sjávarklasans: 50 milljarða króna fjárfesting í nýjum skipum

Eftir nokkur mögur ár í nýfjárfestingum hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki nú hafið sókn inn í framtíðina með stóraukinni fjárfestingu í nýjum fiskiskipum. Alls er nú verið að smíða 11 ný fiskiskip fyrir íslensk útgerðarfélög, níu ísfisktogara og tvö uppsjávarskip. Þá fékk Ísfélag Vestmannaeyja nýtt og stórt uppsjávarskip, Sigurð, afhent í júlí 2014 og annað nýtt uppsjávarskip, Heimaey, árið 2012. Samanlagt eru þessi 13 skip fjárfesting fyrir um 35 milljarða íslenskra króna.

Önnur fjárfesting í sjávarklasanum glæðist nú einnig en Eimskip fékk nýverið afhent nýtt flutningaskip sem fékk nafnið Lagarfoss. Á næsta ári fær félagið svo annað sambærilegt skip afhent. Samanlagt nemur fjárfesting íslenskra fyrirtækja í nýsmíðuðum fiski-, flutninga- og þjónustuskipum rúmum 50 milljörðum króna á síðustu tveimur árum.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri Greiningu Sjávaklasans á umfangsmiklum fjárfestingum íslenskra fyrirtækja í nýsmíðuðum skipum.

Sækja PDF