Áætla má að fjárfestingar í nýjum búnaði og nýsköpun hvers konar í sjávarklasanum nemi um 15-25 milljörðum króna á ári á næstu árum. Mikill og vaxandi skilningur er á mikilvægi nýsköpunar í sjávarklasanum á Íslandi. Á síðustu misserum hefur orðið umtalsverð vakning í umræðu um tækifæri nýrra greina innan sjávarklasans og mörg ný fyrirtæki hafa litið dagsins ljós, meðal annars í fullvinnslu sjávarafurða og líftækni. Áætlanir um afnám fjármagnshafta gefa fyrirheit um aukið aðstreymi erlends fjármagns til nýrra greina sjávarútvegsins í ljósi vaxandi þátttöku erlendra fjárfesta í þeim undanfarin misseri.

Í þessari greiningu (sem nálgast má hér á PDF sniði) verður sjónum beint að þessum vaxandi áhuga og spurt hvernig muni ganga að fjármagna nýsköpun á þessu sviði.


Fjárfestingabylgja í farvatninu

Skipta má fjárfestingum í sjávarklasanum þessi misserin upp í nokkra flokka. Í fyrsta lagi er fjárfesting í nýjum togurum sem smíðaðir eru erlendis en að einhverju leyti fylgir þeim innlend fjárfesting í tæknibúnaði. Í öðru lagi er fjárfesting í nýsköpun og tækni sem tengist veiðum og hefðbundinni fiskvinnslu. Í þriðja lagi er fjárfesting í nýsköpun við fullvinnslu og vöruþróun afurða. Og í fjórða lagi er um að ræða fjárfestingu í nýsköpun á sviði líftækni, m.a. þróun sjávarafurða til lyfjaframleiðslu og framleiðslu fæðubótaefna.

Fjárfesting í nýjum togurum mun nema í það minnsta 33,5 milljörðum króna á næstu þremur árum og dreifast þannig að um 7-8 milljarðar falla til á þessu ári, um 23 milljarðar á næsta ári þegar flest skipin verða afhent og að minnsta kosti 3 milljarðar árið 2017 samkvæmt Hagsjá Landsbankans. Verið er að smíða 11 nýja togara fyrir íslenskar útgerðir, þar af átta ísfisktogara, tvö uppsjávarskip og einn frystitogara. Þessum nýsmíðum mun fylgja mikil hagræðing til lengri tíma enda munu skipin koma til með að leysa fjölda eldri skipa af hólmi. Þessi fjárfesting fer ekki öll til erlendra skipasmíðastöðva heldur þarf að kaupa mikinn tæknibúnað um borð í skipin. Allur gangur er á því hvort íslensku útgerðarfélögin skipti mikið við íslensk tæknifyrirtæki við þá endurnýjun flotans sem nú stendur yfir. Dæmi eru um skip, sem nú eru í smíðum, þar sem ætla má að aðkeypt íslensk tækni og þjónusta um borð nemi um tveimur milljörðum króna. Í öðrum tilfellum eru skip í smíðum sem íslensk tækni um borð nemur um 200-300 milljónum króna.

***

Samkvæmt athugunum Íslenska sjávarklasans hafa fjárfestingar í tæknibúnaði fyrir veiðar og vinnslu hérlendis vaxið mikið á síðustu árum og ræður þar mestu aukin og fjölbreyttari vinnsla í landi og bættur hagur útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja. Velta íslenskra tæknifyrirtækja í sjávarklasanum nam um 60 milljörðum króna á árinu 2013 og þar af var innlend sala um 20% eða um 12 milljarðar króna. Sé gert ráð fyrir því að rúmur helmingur þess sé langtímafjárfesting gerir það um 7-8 milljarða króna á ári. Fyrstu athuganir fyrir rekstrarárið 2014 benda til að síst hafi dregið úr þessari fjárfestingu.

Segja má að fjárfestingar í skipum og vinnslutækni skeri sig úr öðrum nýsköpunarfjárfestingum í sjávarklasanum að því leyti að fyrirtækin sem í þeim standa eru flest fjárhagslega burðug og veruleg hagræðing leiðir af fjárfestingunni. Þá þekkja fjármálastofnanir vel starfsemi á þessu sviði þar sem lánað er til öflugra fyrirtækja með gott sjóðstreymi auk þess sem veð býðst í fasteignum, skipum eða tækjum.

***

Þegar kemur að nýsköpun í fullvinnslu og vöruþróun gerir Íslenski sjávarklasinn ráð fyrir að þau verkefni sem hafa verið kynnt að undanförnu þarfnist um 5 milljarða króna á ári á næstu þremur árum. Stærstu verkefnin þar eru nýjar verksmiðjur eða stækkun verksmiðja á sviði lýsisframleiðslu, kalþörungaverksmiðjur,  framleiðsla kollagens úr roði og þurrkun afurða og próteinvinnsla og nýfjárfesting í niðursuðu, svo dæmi séu tekin. Mörg þessara verkefna eru með afurðir sem ekki hafa áður verið framleiddar á Íslandi og áhætta fjárfesta því í mörgum tilfellum meiri. Það á þó ekki við stærstu lýsis-, niðursuðu- og þurrkunarverksmiðjur landsins þar sem áratuga reynsla er komin á framleiðsluna og aðgengi að mörkuðum er þegar fyrir hendi. 

Einna áhugaverðast verður að fylgjast með vexti fjárfestinga í vöruþróun ýmiskonar, einkum nýjum neytendavörum, en ýmis merki eru um að í þeim efnum sé að verða mikil aukning, jafnvel innan hinnar hefðbundnu fiskvinnslu. Fjölmörg fyrirtæki eru að eflast í útflutningi á vörum sem eru í neytendaumbúðum. Nægir þar að nefna fyrirtæki á borð við Lýsi, ORA, Grím kokk, Norðursalt, Saltverk, TWT og Ankra ásamt ýmsum framleiðendum harðfiskafurða, gæludýrafóðurs og fleira.

Við þetta bætast svo ýmsar fjárfestingar í sjávarlíftæknifyrirtækjum sem oft einkennast af meiri fjárfestingu í fólki, þekkingu og rannsóknum fremur en tækjabúnaði eða stærri verksmiðjum. Ætla má að fjárfestingar í líftækniiðnaði tengdum sjávarklasanum geti numið allt að 2-4 milljörðum króna á næstu þremur gangi áætlanir fyrirtækjanna eftir.

***

Áætlanir um vöxt í sjávarútvegi erlendis gera ráð fyrir góðum vexti í sjávarlíftækni, afurðum úr aukahráefni og ýmis konar fullvinnslu á næstu áratugum. Þetta á sér samsvörun hérlendis og þá ekki síst í fullvinnslu afurða af ýmsu tagi og útflutningi á vörum í neytendapakkningum. Þrátt fyrir þetta reynist mun erfiðara að fjármagna nýsköpun í sjávarlíftækni og ýmis konar fullvinnslu og er það í samræmi við aukna áhættu sem henni fylgir. Hér skiptir miklu máli að fjármálastofnanir og fjárfestar efli þekkingu sína á nýjum og vaxandi sviðum innan sjávarklasans svo þessar stofnanir geti nýst sem bakhjarlar öflugra verkefna. 

Vert er að benda á að svo virðist sem erlendir fjárfestar sem hafa sérþekkingu á umræddum sviðum hafi töluverðan áhuga á íslenskum fyrirtækum eins og fjárfestingar þeirra í innlendum sjávarlíftæknifyrirtækjum síðustu misseri er til marks um. Nú þegar útlit er fyrir afnám fjármagnshafta má fastlega gera ráð fyrir að meira fjármagn leiti í hinar nýju greinar sjávarútvegsins erlendis frá. 

Þörf er á aukinni áhættusækni íslensks fjármálakerfis þegar kemur að nýsköpun í sjávarklasanum, sérstaklega á nýjum og hraðvaxandi sviðum klasans, ef takast á að fjármagna þá nýsköpun sem líklegust er til að skapa verðmæti til framtíðar.


Greining sjávarklasans. Birt 11. júní 2015. Nánari upplýsingar veita Bjarki VigfússonHaukur Már Gestsson og Þór Sigfússon