Þann 24. september síðastliðinn efndi Íslenski sjávarklasinn til Dags þorsksins í fyrsta sinn. Dagurinn var afskaplega vel heppnaður og mættu hátt í 900 manns í Hús sjávarklasans við Grandagarð í Reykjavík. Meðal gesta voru 350 nemendur í efstu bekkjum grunnskóla úr um 10 grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu.

Meðal þeirra sem tóku þátt í hátíðinni voru öll fyrirtækin í Húsi sjávarklasans, ýmsir samstarfsaðilar Íslenska sjávarklasans og fjölmörg nágrannafyrirtæki Íslenska sjávarklasans við Gömlu höfnina. Húsið var opið gestum og gafst fyrirtækjum kostur á að kynna starfsemi sína, vörur og þróunarstarf. Hægt var að smakka á ýmsu góðgæti úr þorskafurðum og má þar nefna þorska cheviche, niðursoðna þorsklifur, þorkshausasúpu, próteindrykki með kollageni sem unnið er úr þorskroði og margt fleira.

Á Degi þorsksins mátti sjá í Húsi sjávarklasans þá gríðarlega fjölbreyttu flóru fyrirtækja sem vinna með þorsk og þorskafurðir af einhverju tagi á Íslandi. Tilgangurinn með deginum var m.a. sýna gestum þetta með skemmtilegum hætti og um leið að minna á mikilvægi þorsksins fyrir okkur Íslendinga en afurðir hans og útflutningur á tækni tengd veiðum og vinnslu hans skila minnst 100 milljörðum króna á ári í útflutningstekjur.
Starfsfólk Íslenska sjávarklasans vill þakka innilega öllum þeim sem tóku þátt í Degi þorsksins fyrir sitt framlag og styrktaraðilum sem gerðu hátíðina mögulega. Styrktaraðilar Dags þorsksins voru Marel, Þorbjörn, Vinnslustöðin, Hraðfrystihúsið-Gunnvör og Skinney-Þinganes.

 Heiðdís Skarphéðinsdóttir sýnir gestum og gangandi ýmsar vörur

Heiðdís Skarphéðinsdóttir sýnir gestum og gangandi ýmsar vörur.
Ljósmyndari: Geirix

 

Fleiri myndir frá viðburðinum má sjá á Facebooksíðu Íslenska sjávarklasans