Mikil tæknivæðing og hátt þekkingarstig er lykilatriði í tengslum við þróun sjávarklasans. Öflugir þjónustuaðilar leika þar stórt hlutverk. Í þessum kafla verður farið yfir starfsemi nokkurra af þeim aðilum er sinna ýmissi þjónustu. Hér getur verið um að ræða fjármögnun, rekstrar- og tækniráðgjöf, tryggingar, endurskoðun, lögfræðiþjónustu og einnig aðra þjónustu er ekki fellur undir þá hluta klasans er rætt hefur verið um hér að framan.

Margháttuð þjónustustarfsemi í sjávarklasanum hefur byggst upp á undanförnum áratugum. Þessi starfsemi hefur mest megnis dafnað vegna öflugs sjávarútvegs hérlendis sem reynir á hverjum tíma að vinna með nýjustu tækni sem völ er á. Erfitt er að ná utan um öll þau fjölmörgu fyrirtæki er þjónusta haftengda starfsemi og meta mikilvægi viðskiptanna og umfang. Fjöldi smárra fyrirtækja og einyrkja er mikill og mikilvægi viðskipta við fyrirtæki í haftengdri starfsemi er misjafnt. Verslun í Reykjavík sem þjónustar einstaklinga sem koma úr ólíkum atvinnugreinum á væntanlega lítið undir haftengdri starfsemi á meðan verslun í litlu sveitarfélagi sem byggir allt sitt á veiðum og vinnslu á mikið undir því að vel gangi og það fiskist.

Til þess að fá gleggri mynd af þjónustustarfsemi í tengslum við sjávarklasann var gerð ítarleg athugun á öllum aðfangakaupum sjávarútvegsins. Þannig var safnað upplýsingum um hvaða þjónustu sjávarútvegurinn kaupir af íslenskum fyrirtækjum. Niðurstöður þessarar athugunar benda til þess að þær atvinnugreinar, sem mest eiga undir viðskiptum við sjávarútveginn, séu málmsmíði, vélaviðgerðir, skipasmíðar, flutningastarfsemi og netagerð.

Fjölmargar aðrar atvinnugreinar eiga einnig í viðskiptum við sjávarútveginn eins og umboðsverslun, vélaleiga, umbúðaiðnaður, orkustarfsemi o.fl. Þá má nefna margvísleg umboðsverslun, en undir þann hatt falla eldsneytissala, sala á veiðarfærum, vélum, verkfærum, fatnaði og umbúðum.

Við hlið sjávarútvegsins hefur því byggst upp margháttuð hliðarstarfsemi sem síðar kann að verða mun fyrirferðarmeiri en sjávarútvegurinn sjálfur. Það sem byrjar sem þjónusta við íslenskan sjávarútveg verður smám saman að sjálfstæðri útflutningsstarfsemi.

Í ofangreindri aðfangagreiningu er ekkert minnst á hlut fjármálastofnana í tengslum við sjávarútveg, en bankastofnanir á Íslandi eiga mikið undir því að sjávarútvegurinn sé vel rekinn og standi undir sér.

Umtalsvert af útlánum bankanna er til þeirrar greinar. Þannig námu útlán til sjávarútvegs í árslok
2010 hjá Landsbanka 134 milljörðum króna sem er um 22,6% af útlánum bankans til viðskipta­manna. Hjá Íslandsbanka nam fjárhæðin um 68 milljörðum króna eða 13,2% af lánum viðskipta­manna og hjá Arion banki voru útlán 47,7 milljörðum, sem er um 10,6% af lánum (Skýrsla um starfsemi Bankasýslu ríkisins 2011, bls. 61). Í bönkum á Íslandi ríkir almennt góður skilningur og góð þekking á þörfum helstu greina í haftengdri starfsemi, en íslenskir bankar hafa þarna nokkra sérstöðu því víða erlendis skortir mikið á að sjávarútvegur sé rekinn á viðskiptalegum forsendum. Flestir bankarnir hafa innan sinna vébanda hóp sérfræðinga sem geta veitt ítarlega ráðgjöf um flest það sem að þessari atvinnugrein lýtur.

En það eru ekki bara bankarnir sem hafa á að skipa reynslumiklum sérfræðingum á þessu sviði. Hópur Íslendinga starfar við ráðgjöf og selur þjónustu sína innlendum og erlendum fyrirtækjum. Íslendingar skipuleggja t.d. á hverju ári eina virtustu ráðstefnu í heimi um þróun í botnfiskveiðum. Ráðstefnan heitir Groundfish Forum, en hana sækja lykilaðilar í veiðum, vinnslu og sölu á botnfiski úr Norður Atlantshafi. Íslandsbanki hefur sérhæft sig í þjónustu á þessu sviði utan Íslands. Þá eru minni fyrirtæki starfrækt hérlendis sem sinna álíka þjónustu. Fyrirtækið Markó partners sem var stofnað 2008 sérhæfir sig í viðskiptaráðgjöf og greiningu. Meðal fyrirtækja sem Markó Partners hafa aðstoðað eru Kanadíska laxeldisfyfirtækið Cooke Aquaculture, Highliner Fine Foods og Clearwater Seafoods.

Íslendingar hafa einnig lagt til vinnslu og útvegsþekkingu í verkefnum í Kína og í tengslum við Nílarkarfarvinnslu í Úganda og komið að rekstri útgerða út fyrir ströndum Afríku. Verkfræði- og verktakafyrirtæki eins og Verkís og Navís bjóða fyrirtækjum að annast verkfræðiþjónustu og eftirlit í tengslum við skip, skipasmíðastöðvar, fiskverkunarhús, frystihús og bræðslur, skipulagningu mannvirkja sem og aðstoða við útboð og innkaup á vélum og búnaði.

Landsbjörg og Sjávarklasinn

Slysavarnafélagið Landsbjörg á og rekur 14 björgunarskip í samvinnu við björgunarbátasjóði hringinn í kringum landið. Björgunarsveitirnar eiga og reka 22 harðbotnabáta og 66 annars konar slöngubáta. Slysavarnarfélagið rekur síðan Slysavarnaskóla Sjómanna með 8 stöðugildi.  Umsvif Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem tengjast hafinu nema alls um 18 stöðugildum, launuðum og ólaunuðum og rekstrarkostnaður er um 212 miljónir á ári.

Íslendingar geta verið stoltir þegar kemur að öryggismálum sjómanna. Árlega farast 1,2 milljónir  manna í heiminum í sjóslysum, en hér eru dauðsföll og slys með því lægsta sem þekkist. Þennan árangur má m. a. þakka starfi Slysavarnarfélagsins, hagsmunaaðila og tryggingafélaga sem hafa unnið markvisst að því að fækka slysum og dauðsföllum.

Þess má líka geta að verktakafyrirtækið Ístak hefur á síðustu árum tekið þátt í að reisa bygg­ingar við viðlegukant fyrir skemmtiferðaskip á Jamaíka og í Noregi hefur fyrirtækið komið að hafnarframkvæmdum í Stamsund í Lofoten.

Tækifæri og hindranir

Að mati þeirra sem skýrsluhöfundur talaði við var talið fremur ólíklegt að mikil aukning gæti orðið í verkefnum fyrir þjónustufyrirtæki sem eru að þjóna sjávarútvegi, en enn er hægt að ná fram töluverðri hagræðingu í greininni. Bent var á að það hefði reyndar verið að byggjast upp mikil endurnýjunarþörf í tengslum við sjávarútveg og fiskvinnslu en þessar atvinnugreinar hafa haldið að sér höndum meðan óvissa hefur ríkt um framtíðarskipan fiskveiðstjórnunar. Þegar þessari óvissu lýkur má ætla að umsvif aukist.

Þegar litið var til þess hvar helst mætti ætla að vöxtur gæti orðið í þjónustu og ráðgjöf var aukin þjónusta við erlenda aðila nefnd og aukin þjónusta við þær greinar sem vaxið gætu upp innan sjávarklasans. Mögulega gæti málm- og skipasmíði og löndunarþjónusta þannig notið þess að komum erlendra skipa fjölgi, með aukinni skipaumferð á norðurslóðum, umsvifum t.d. á Grænlandi og í kringum olíuleit.

(kafli úr skýrslu sjávarklasans)

Numerous companies involved in research and consultancy services for the fisheries sector have grown quickly in recent years. Financial experts provide consultancy services overseas, technical engineers and naval engineers sell their services abroad and a variety of research projects here in Iceland have been funded by foreign entities. It is worth mentioned that the Icelandic Coast Guard is currently involved in exports through the lease of cruisers and more for guarding foreign marine regions, although these figures have not been included in these calculations. According to information from the companies, it is estimated that the turnover is ISK 1.5bn per year and that the sector creates up to 150 jobs.