Í ævisögu Steve Jobs segir frá því þegar Jobs, þá fjórtán ára, vantaði hlut í lítið raftæki sem hann var að búa til. Þá datt honum í hug að hringja i Bill Hewlett forstjóra Hewlett Packard sem hann hafði aldrei hitt áður.  Númer Hewletts var í símaskránni og það kom Jobs skemmtilega á óvart að Hewlett svaraði sjálfur og spjallaði við strákinn. Í framhaldinu reddaði Hewlett hlutnum og réð Jobs í sumarvinnu.  Þessi samskipti unga mannsins við forstjóra HP áttu ugglaust þátt í þeim töfrum sem á eftir komu hjá Apple og eru lýsandi fyrir þá opnu menningu í Sílíkondal i Kaliforníu þar sem mörg þekktustu fyrirtækin í tölvutækni urðu til.

Það þarf ekki endilega að fara til Ameríku til að finna áhugaverð dæmi um jákvæð samskipti ungs fólks og fyrirtækja sem leitt hafa til tækninýjunga og stofnunar fyrirtækja.  Nafn Sigurðar Einarssonar útgerðarmanns í Vestmannaeyjum ber oft á góma þegar tæknifyrirtæki í sjávarútvegi segja frá því hvernig þau hófu starfsemi sína. Þar átti Sigurður stóran þátt með jákvæðu viðhorfi til nýrra hugmynda sem ný tæknifyrirtæki kynntu honum.  Það mætti nefna aragrúa annarra tækni- og líftæknifyrirtækja í sjávarklasanum sem urðu til vegna þess að það var brennandi áhugi á framförum, kaupendurnir voru áhugasamir um nýjungar og þekking var til staðar. Trackwell þróaði sinn samskiptabúnað fyrir sjávarútveg í samstarfi við m.a. Vísi í Grindavík og Marel, eitt glæsilegasta fyrirtæki landsins, varð  til upp úr samstarfi hugvitsmanna í Háskóla Íslands og útgerðarfyrirtækja.   

Samanburður á íslenskum sjávarútvegi og Sílikondal virðist langsóttur. Staðreyndin er hins vegar að tölvugeirinn í Sílikondal og íslenskur sjávarútvegur eiga það sammerkt að báðar greinar eru að mörgu leyti í forystu í heiminum.  Þótt sjávarútvegur hér hvíli á náttúruauðlindum þá er staðreyndin sú að framtíð sjávarútvegs og þeirra þúsunda starfa sem má skapa í greininni á komandi árum, hvílir á hugviti.

Þótt íslensku sögurnar hér að framan séu ekki af óhörðnuðum unglingum þá er samanburðurinn mikilvægur. Viðbrögð sjávarútvegsfyrirtækjanna eru öll á einn veg. Það er áhugi og metnaður fyrir nýjungum og fyrirtækin eru þess megnug að fjárfesta í nýsköpun. Þessi einkenni verðum við að viðhalda og efla ef við ætlum að ná árangri. 

Nauðsynlegt er að auka áhuga ungs fólks á frumkvöðlastarfi. Keppnir í nýsköpun í grunnskólum og námskeið í framhaldsskólum eru ágæt dæmi um áhuga kennara og ýmissa stofnana eins og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á því að efla áhuga ungs fólks á því að stofna fyrirtæki og skapa eitthvað sjálf. Þetta starf er til mikillar fyrirmyndar.

Íslenski sjávarklasinn hefur tekið þátt í JA Iceland sem er nýsköpunarverkefni í framhaldsskólum. Klasinn hvatti ungt fólk til að skoða nýsköpun sem tengdist hafinu í keppni sem nýlega fór fram og veitti sérstaka viðurkenningar fyrir bestu viðskiptahugmyndina sem tengdist hafinu. Um leið bauð klasinn nemendunum að heimsækja Hús sjávarklasans á Grandagarði. Viðbrögðin voru frábær og varð sexföldun á fjölda viðskiptahugmynda sem tengdust hafinu frá árunum á undan.

Áhugavert var að sjá að þetta unga athafnafólk sýndi mikinn áhuga á umhverfisvernd, endurvinnslu og áframvinnslu afurða í þeim hugmyndum sem fram komu. Þessi jákvæðu viðbrögð sýna svo ekki verður um villst að ungt athafnafólk hefur áhuga á haftengdri nýsköpun hvers konar. Það þarf bara að benda þeim á þessi tækifæri og kveikja áhuga þeirra!

Í sex ára starfi Sjávarklasans hefur ekkert sjávarútvegsfyrirtæki neitað okkur eða frumkvöðlum á okkar vegum að koma í heimsókn og kynnast fyrirtækjunum eða ræða hugmyndir sínar. Það er ómetanlegt fyrir unga frumkvöðla og nemendur að heimsækja vinnustaðina og sjá þá gerjun sem víða má finna í sjávarútvegnum.

Við hvetjum fyrirtæki inna sjávarklasans til þess að bjóða nemendahópum í heimsókn til sín og jafnvel að koma á nýsköpunarkeppnum á sínum svæðum. Þessir ungu frumkvöðlar geta verið mikilvægur partur þeirrar auknu verðmætasköpunar sem getur orðið á næstu árum í haftengdum greinum á íslandi.

Hewlett Packard tölvufyrirtækið setti snemma á laggirnar Hewlett Packard Explorers Club til að hvetja unga krakka í Sílikondal til að sýna raftækni áhuga.  Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki gætu með sama hætti stofnað eins konar lítið fiskifélag þar sem ungt fólk í grunnskólum landsins fær að prófa nýsköpun sína tengda hafinu og koma hugmyndum í framkvæmd.