_WED3556 (2)Íslenski sjávarklasinn og MS hafa undirritað samstarfssamning um að stuðla að frekari nýsköpun í matvælageiranum og efla samstarf MS við matarfrumkvöðla með það að markmiði að auka nýjungar og vöruþróun. Gott dæmi um verkefni sem þegar er komið á, er samstarf Codlands og MS um nýtingu hágæða kollagens úr þorskroði í drykkjaframleiðslu.

Samkvæmt athugunum Íslenska sjávarklasans hafa um 50 fyrirtæki í framleiðslu matvæla og matvælatækni verið stofnuð á undanförnum 5 árum. Um helmingur fyrirtækjanna eru frumkvöðlafyrirtæki í matvælaframleiðslu hvers konar; matvæli, fæðubótarefni, bragðefni o.s.frv. og um þriðjungur þessara fyrirtækja býður margháttaðar tæknilausnir, upplýsingatækni og fleira fyrir matvælaiðnaðinn. Samkvæmt athugunum klasans er einnig mun meira um að matarfrumkvöðlar nýti sér ólík hráefni hvort sem er úr landbúnaði, sjávarútvegi eða á öðrum sviðum.

„Við höfum áhuga á að tengja matarfrumkvöðla og efla enn frekar aðstöðu matarfrumkvöðla í Húsi sjávarklasans og þessi samningur opnar á frekari möguleika til þess“, segir Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans.

„Við erum ánægð með að leggja með þessum hætti grunn að eflingu matvælageirans á Íslandi,“ segir Ari Edwald forstjóri MS. „Við trúum því að frekari nýsköpun í matvælageiranum öllum og aukið samstarf geti eflt íslenskan matvælaiðnað bæði hér og erlendis.“

Á myndinni eru Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans og Ari Edwald forstjóri MS við undirritun samningsins.