Opnað hefur verið fyrir umsóknir um rekstur bása í mathöll á Hlemmi sem stefnt er að því að opna í haust. Á Hlemmi verða ólíkir rekstraraðilar sem afgreiða ferska matvöru, sérvöru og/eða tilbúinn mat og drykk til að njóta á staðnum. Áhersla verður á mikil gæði afurðanna og matarins og opna markaðsstemningu.

Auglýst er eftir 10 metnaðarfullum rekstraraðilum sem selja ferska matvöru og sérvöru eins og fisk, kjöt og grænmeti eða tilbúnar veitingar og drykki til að njóta á staðnu. Stærð bása verður frá 7 upp í 25 fermetra og sæti fyrir gesti verða sameiginleg, alls um 80 talsins auk útisvæðis.

torve

Einkum auglýst eftir þrenns konar frumkvöðlum:

  1. Þeim sem geta komið hugmyndinni fyrir á 13 fermetrum (geymslur og lagerpláss ótalið). Kostur er ef hugmyndin felur bæði í sér sölu á sérvöru og veitingum til að njóta á staðnum.
  2. Þeim sem geta komið hugmyndinni fyrir á 7 fermetrum (geymslur og lagerpláss ótalið), þá sérstaklega þeim sem vilja framleiða götumat af bestu sort.
  3. Þeim sem vilja setja upp lítinn veitingastað með vínveitingaleyfi á 13-25 fermetrum (geymslur og lagerpláss ótalið). Hér er einkum óskað eftir fólki með metnað og reynslu á veitingum, bjór eða víni.

GWM

„Í mathöllinni verður blanda af ráðsettum og traustum kaupmönnum, sérstaklega þegar um ræðir sérvöru og hrávöru en einnig glænýjum hugmyndum og frumkvöðlum, sérstaklega í veitingahlutanum. Hugmyndin er sú að skapa áfangastað sem verður alltaf upplifun að koma á, hvort sem þú ert að versla hráefni í máltíð til að elda heima, fá þér hádegismat eða vínglas og smárétti um kvöldið. Á torginu við Hlemm gefst svo tækifæri til að halda útimarkaði um helgar eða við sérstök tilefni, til dæmis á haustin þegar bændur skera upp” segir Haukur Már Gestsson einn forsvarsmanna mathallarinnar.

Allar nánari upplýsingar má finna á www.hlemmurmatholl.is og á www.facebook.com/HlemmurMatholl.

Umsóknir ber að senda á netfangið hlemmur@sjavarklasinn.is. Umsóknarfrestur er til 21. mars næstkomandi.