Eimskip, Icelandair Cargo, Brim og Mannvit í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Íslenska sjávarklasann hafa tekið höndum saman og opnað nýtt frumkvöðlasetur í Húsi sjávarklasans við Reykjavíkurhöfn. Ætlunin er að skapa þannig vettvang fyrir hugmyndir og verkefni tengd hafinu og það í nálægð við lítil og stór fyrirtæki sem eru að vinna innan atvinnugreinarinnar.

Hús Sjávarklasans, sem staðsett er að Grandagarði 16,  hýsir í dag ýmis fyrirtæki sem tilheyra Íslenska sjávarklasanum. Húsið var formlega opnað þann 26. september síðastliðinn og voru þá öll fyrirtæki flutt inn í húsið.  Nú er ætlunin að útfæra hugmynd Íslenska sjávarklasans um styrkingu tækifæra og styrkingu tengslanets í haftengdri starfsemi enn frekar og nú með opnun á sérhæfðu frumkvöðlasetri. Um er að ræða frumkvöðlasetur fyrir einstaklinga með hugmyndir og verkefni tengd hafinu. Í setrinu fá einstaklingar tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar í skapandi umhverfi í samstarfi við sérfræðinga Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands  og Íslenska sjávarklasans. Einnig gefst einstaklingunum tækifæri til að komast í námunda við fjölmörg fyrirtæki í starfsemi sem tengjast m.a. tækni í sjávarútvegi.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir

Vinnuaðstaða í nýju setri felur meðal annars í sér leigu á skrifstofuaðstöðu gegn vægu gjaldi, aðgang að fundarherbergjum, faglega ráðgjöf og stuðning auk skapandi umhverfis og aðgengi að öflugu tengslaneti fyrirtækja og starfsmanna þeirra. Opnað hefur verið fyrir umsóknir og geta áhugasamir nálgast frekari upplýsingar um setrið og sótt um aðstöðu á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, www.nmi.is eða smellt hér fyrir 15. nóvember næstkomandi.